Erfðaefnisskrá lögreglu

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 18:52:53 (6476)

2001-04-05 18:52:53# 126. lþ. 107.18 fundur 616. mál: #A erfðaefnisskrá lögreglu# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[18:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að það fer hálfgerður hrollur um mig þegar ég les þetta frv. og hlýði á mál hæstv. dómsmrh. Loksins hefur það gerst að stóri bróðir, sem George Orwell skrifaði um, er eiginlega genginn aftur í frumvörpum íslensku ríkisstjórnarinnar. Ég ætla að þessu sinni ekki að hafa langt mál um frv., herra forseti, en hæstv. dómsmrh. sagði að þeir sem ættu að fara í þessar skrár sem getið er um í 3. og 4. gr. væru menn sem hefðu gerst sekir um ákaflega alvarleg brot. Þegar ég les síðan athugasemdir við t.d. 4. gr. þar sem verið er að lýsa þeim sem eiga að fara í svokallaða kennslaskrá, þá kemur t.d. í ljós að þar er um að ræða menn sem hafa brotið gegn ákvæðum um landráð, brotið gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Sömuleiðis þeir sem gerast sekir um að veita ekki aðstoð í nauð og um tiltekna tegund ráns. Það er ekki nóg með það, herra forseti, heldur á líka að skrá upplýsingar um þá sem gerast sekir um tilraun til þessara brota. Ég skil þetta svo, herra forseti, að þeir sem eru sekir um tilraun hafi ekki náð tilgangi sínum, með öðrum orðum, þeir hafa ekki gerst sekir við tiltekin ákvæði.

En ég spyr hæstv. ráðherra: Hví í ósköpunum þarf að skrá upplýsingarnar sem rætt er um í viðkomandi grein um þessa einstaklinga sem hafa gerst sekir um tiltekin afbrot sem ég ræddi hérna og um tilraun til þess? Er þetta ekki allt of langt gengið?