Umferðarlög

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 19:14:37 (6485)

2001-04-05 19:14:37# 126. lþ. 107.21 fundur 672. mál: #A umferðarlög# (farsímar, fullnaðarskírteini) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[19:14]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á umferðarlögum. Með frv. er lagt til að notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar verði bönnuð. Einnig eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um ökuréttindi.

Frv. er byggt á tillögum starfshóps sem ég skipaði til að fara yfir umferðarlög og reglur settar á grundvelli þeirra í þeim tilgangi að gera tillögur og ábendingar um atriði sem mættu betur fara í því skyni að auka umferðaröryggi og bæta umferðina. Í starfshópnum áttu sæti Þorgerður K. Gunnarsdóttir alþingismaður, sem er formaður hópsins, Hjálmar Björgvinsson aðalvarðstjóri, tilnefndur af ríkislögreglustjóra, Ingvi Hrafn Óskarsson, aðstoðarmaður dómsmrh., Jakob Falur Garðarsson, aðstoðarmaður samgrh., og Óli H. Þórðarson, framkvæmdastjóri Umferðarráðs. Ritari starfshópsins var Sandra Baldvinsdóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumrn.

[19:15]

Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til ráðuneytisins í febrúar sl. Í skýrslu hópsins er að finna fjölmargar gagnlegar tillögur um breytingar á lögum og reglum um umferðarmálefni. Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því starfshópurinn lauk störfum hefur ekki gefist ráðrúm til að ljúka við að útfæra tillögur hópsins nánar en þær eru nú til athugunar í ráðuneytinu. Því verki miðar vel og er frv. það sem hér liggur fyrir afrakstur af því starfi. Frekari úrbótum á þessu sviði verður síðan haldið áfram á grundvelli tillagna hópsins og mun ég kappkosta að ötullega verði unnið að þessu brýna verkefni.

Ég mun nú gera nánari grein fyrir þeim tillögum sem er að finna í frv.

Í 1. gr. er lagt til að bann verði sett við notkun farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur vélknúins ökutækis. Notkun farsíma án slíks búnaðar í umferðinni er augljóslega til þess fallin að draga úr færni ökumanns til að stjórna bifreið og auka hættu í umferðinni. Þetta styður fjöldi erlendra rannsókna. Af þessum sökum hafa mörg ríki lagt bann við notkun farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur. Hér er lagt til að fylgt verði fordæmi þessara þjóða.

Tillaga frv. um bann við notkun farsíma án handfrjáls búnaðar felur í sér breytingu á háttum sem hingað til hafa viðgengist. Því er mikilvægt að bann þetta verði kynnt rækilega fyrir öllum almenningi og vil ég leggja ríka áherslu á að sú kynning fari fram á jákvæðum nótum þannig að leitað verði fylgis ökumanna við þessa sjálfsögðu breytingu. Í samræmi við þetta er lagt til að ekki verði refsað fyrir brot gegn þessu banni fyrr en að liðnu ári frá gildistöku laganna. Hér er tekið mið af þeirri reynslu sem fékkst við lögleiðingu öryggisbelta.

Í 2. gr. frv. er lagt til að sett verði sérstök skilyrði fyrir því að gefið verði út fullnaðarskírteini til þeirra sem hafa bráðabirgðaskírteini. Þessi skilyrði eru að hlutaðeigandi hafi farið í akstursmat eftir að hafa haft bráðabirgðaskírteini í a.m.k. eitt ár og að viðkomandi hafi ekki undanfarandi ár fengið punkta í punktakerfi ökumanna eða verið án ökuréttar vegna sviptingar. Þessi tillaga frv. byggir á þeirri velþekktu staðreynd að ungir og reynslulitlir ökumenn valda hlutfallslega fleiri slysum en aðrir í umferðinni. Þetta kemur ekki á óvart þar sem augljóst er að ökumaður nær aukinni færni eftir því sem hann öðlast meiri reynslu í akstri.

Af þessu tilefni hefur því gjarnan verið hreyft hvort ekki sé rétt að hækka ökuskírteinisaldur, t.d. í 18 ár. Ekki hefur verið leitt í ljós með óyggjandi hætti að hærri aldri fylgi aukin þekking á umferðarreglum né örugg vissa fyrir því að eldri ökumenn brjóti í minna mæli umferðarreglur. Samkvæmt samantekt rannsóknarnefndar umferðarslysa um unga ökumenn og ráðstafanir til að fækka slysum sýna rannsóknir afdráttarlaust að slysatíðni lækkar með reynslu ökumanna en áhrif aldurs í þessu samhengi eru hins vegar umdeild.

Þá þykir heppilegra og árangursríkara að sporna gegn slysum hjá ungum ökumönnum með aðgerðum sem byggja á fræðslu, hvatningu og auknu aðhaldi. Slíkar aðgerðir hvíla á trausti til ungs fólks og taka mið af því að velflestir ungir ökumenn eru til fyrirmyndar í umferðinni.

Þetta viðhorf liggur til grundvallar tillögum frv. um breytingar á ákvæðum laganna um ökuréttindi. Þessar tillögur fela í sér aukið aðhald fyrir byrjendur í umferðinni þannig að þeir fari að umferðarreglum og stuðla að því að ungir ökumenn leitast við að efla þjálfun sína fyrir akstursmat sem þeir verða að gangast undir áður en þeir öðlast fullnaðarskírteini.

Ég vil hins vegar taka fram að ég tel eðlilegt að þegar nokkur reynsla verði komin á þessar breytingar, t.d. eftir þrjú ár, verði gerð úttekt á árangrinum með hliðsjón af hugsanlegum breytingum á ökuskírteinisaldrinum.

Í frv. er gert ráð fyrir að akstursmat vegna útgáfu fullnaðarskírteinis fari fram á vegum Umferðarráðs og að það annist löggiltir prófdómendur. Miðað er við að akstursmat taki um 30--45 mínútur og fari fram á bifreið sem umsækjandi hefur til umráða. Miðað er við að akstursmat verði ekki jafnumfangsmikið og verklegt ökupróf.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til hv. allshn. og 2. umr.