Umferðarlög

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 19:22:35 (6487)

2001-04-05 19:22:35# 126. lþ. 107.21 fundur 672. mál: #A umferðarlög# (farsímar, fullnaðarskírteini) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[19:22]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breyting á umferðarlögum og í því eru nokkur atriði.

Ég er í sjálfu sér mjög ánægður með 2. gr. og 3. gr. sem tekur á þeirri miklu áhættu sem fylgir ungum ökumönnum í umferðinni og finnst nokkuð snjöll lausn að veita svona bráðabirgðaskírteini.

Hins vegar er ég ekki alveg eins hrifinn af 1. gr. sem hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

,,Ökumanni vélknúins ökutækis er við akstur óheimilt að nota farsíma án handfrjáls búnaðar.``

Ökumenn sem eru að aka bifreið gera ýmislegt. Þeir eru í fyrsta lagi að horfa í kringum sig, landslagið, og stundum er umhverfið mjög einhæft þannig að það sígur á menn svefn. Svo eru sumir með börn í bílnum. Börnin geta verið með óþekkt eins og oft vill verða þegar þau þurfa að sitja lengi og eru að krefjast hins og þessa. Svo getur ökumaður verið að tala við aðra farþega í bifreiðinni. Hann getur verið að hlusta á útvarp. Hann getur verið að borða. Það hefur sést. Svo er sumt fólk sem reykir í bílnum, voðalegur hlutur, ná í sígarettukveikjarann, ná í sígarettuna. Þetta er töluvert mikið stúss og á meðan er athyglin ekki við aksturinn sem skyldi þegar menn langar mikið til þess að fá sér sígarettu.

Allt eru þetta atriði sem auka áhættu í akstri. Ef ætlunin er virkilega að ganga eins langt og hægt er og koma alveg í veg fyrir slys þá er náttúrlega langbest að banna fólki að keyra yfirleitt vegna þess að það er alltaf eitthvað sem truflar athyglina þegar menn keyra.

Varðandi farsíma, sem menn eru farnir að nota í auknum mæli í bifreiðum, og ég tek undir að er ekki æskilegt, langt í frá, þá er það eiginlega eitt í því sambandi sem ég mundi telja að væri mjög hættulegt. Það er þegar menn velja númerið því þá þurfa þeir að horfa af götunni og horfa á tækið og þá er athyglin bundin við tækið og að muna númerið og slá það inn o.s.frv. Þá er áhættan mest. Svo lyfta menn símanum og horfa fram á veginn og tala eiginlega með sama hætti og við farþega í bifreiðinni nema þeir stýra með annarri hendi. Þá finnst mér að hættan sé miklu minni.

Í frv. er gert ráð fyrir því að óheimilt sé að nota farsíma án handfrjáls búnaðar. Þá er væntanlega átt við það að menn séu með heyrnartæki og hljóðnema til að tala í sem heitir handfrjáls búnaður en er það að sjálfsögðu ekki því menn þurfa að velja númerið eftir sem áður. Það er reyndar til tæki sem hægt er að tala við og segja: ,,Hringja í Önnu``, eða eitthvað slíkt og þá gerir síminn það. En sá búnaður er ekki mjög víða og í frv. er ekkert skilgreint nánar hvað er átt við með handfrjálsum búnaði, hvort hann sé algjörlega handfrjáls þannig að maður getur talað við hann eða hvort það sé það sem ég nefndi fyrr, þ.e. með heyrnartæki og hljóðnema. Ef um er að ræða að menn þurfi að velja númerið eftir sem áður þá er það langhættulegasta augnablikið.

Það sem ég hef við þetta að athuga er að menn skuli yfirleitt vera að setja svona reglur, þ.e. banna fólki þetta og hitt. Auðvitað á fólk ekki að nota síma við akstur og mér finnst það ættu að vera reglur um það, leiðbeinandi reglur sem segja að það sé óæskilegt eða ekki sé æskilegt að tala í símann eða borða eða hafa óþekka krakka í bílnum eða eitthvað slíkt. En ég er sérstaklega á móti því að fara í hlutverk stóra bróður og segja: Þú mátt ekki þetta, þú mátt ekki hitt og þú skalt gera svona og ekki hinsegin, vegna þess að þær rannsóknir sem vísað er til í greinargerðinni eru bara ekkert svo greinilegar. Í greinargerðinni stendur, með leyfi herra forseta:

,,Notkun farsíma án handfrjáls búnaðar í umferðinni er augljóslega til þess fallin að draga úr færni ökumanns til að stjórna bifreið og auka hættu í umferðinni. Þetta styðst við fjölda erlendra rannsókna.``

Alltaf þegar menn segja að eitthvað sé augljóst þá er það greinilega ekki augljóst því þeir þurfa að undirstrika það sérstaklega að það sé augljóst. Eins og ég get nefnt hérna þá er fullt af atriðum sem geta verið þannig að það er jafnvel hættulegra en það sem ég nefndi, sérstaklega þegar menn eru þreyttir og sofna kannski við akstur. Það er líka mjög hættulegt.

Ég hef því miklar efasemdir um þetta atriði á meðan ekki er sannað með betri rannsóknum að þetta sé raunverulega svona miklu hættulegra en margt annað sem er leyft. Ég tel t.d. að það að drekka gos í bíl eða borða mat í bíl, sé ekki síður hættulegt og ekki síður ástæða til að banna það en að tala í síma.

Ég mundi hafa viljað hafa þetta öðruvísi og vísa því til hv. nefndar sem fær þetta frv. til umfjöllunar hvort ekki megi skoða það einhvern veginn að það sé leiðbeinandi atriði, ekki boð og bönn, heldur leiðbeinandi: Þú skalt helst ekki gera þetta og helst ekki gera hitt þegar þú ert að keyra þannig að ekki séu við því viðurlög og annað slíkt sem getur verið mjög erfitt að sanna.

Herra forseti. Ég tek undir 2. og 3. gr. í frv. en hef miklar efasemdir um það að lögreglan ætli að fara í hlutverk stóra bróður varðandi notkun á farsímum.