Landhelgisgæsla Íslands

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 19:41:03 (6493)

2001-04-05 19:41:03# 126. lþ. 107.22 fundur 673. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (smíði varðskips) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[19:41]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um Landhelgisgæslu Íslands.

Með frv. er lögð til sú breyting á lögunum að fellt verði brott ákvæði í 2. mgr. 15. gr., þess efnis að við smíði varðskips eða viðhaldsframkvæmdir sé eigi skylt að láta fara fram útboð og að leita megi tilboða frá einum eða fleiri aðilum.

Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel hefur gert athugasemdir við þetta lagaákvæði og dregið í efa að það samræmist þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Af þessu tilefni hóf eftirlitsstofnunin undirbúning að málshöfðun gegn íslenska ríkinu fyrir EFTA-dómstólnum.

Eftir nánari athugun og viðræður hefur orðið að samkomulagi að leggja til að umrætt lagaákvæði verði fellt brott og að smíði varðskips verði þegar þar að kemur boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu. Málaferli fyrir EFTA-dómstólnum munu þá um leið falla niður. Er frv. þetta flutt í tilefni af því samkomulagi.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.