Skipan opinberra framkvæmda

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 20:03:57 (6499)

2001-04-05 20:03:57# 126. lþ. 107.26 fundur 671. mál: #A skipan opinberra framkvæmda# (heildarlög) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[20:03]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um skipan opinberra framkvæmda sem finna má á þskj. 1049. Samhliða þessu frv. mælti ég áðan fyrir frv. til laga um opinber innkaup sem kallar á breytingar á núgildandi lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, hvað varðar almennar eftirlitsreglur um opinber innkaup.

Ákvæði er snúa að fyrirkomulagi útboða verkframkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu sem innleidd voru við gildistöku samningsins og eru nú í lögum um skipan opinberra framkvæmda eru felld út með frv. en hins vegar felld inn í frv. til laga um opinber innkaup sem ég gerði grein fyrir áðan.

Núgildandi lög um skipan opinberra framkvæmda, nr. 63/1970, voru unnin á grundvelli álits nefndar sem fjármálaráðherra skipaði á sjöunda áratugnum. Markmiðið með lögunum er að tryggja sem hagkvæmasta nýtingu þess fjármagns sem varið er til opinberra framkvæmda. Í samræmi við þetta er í lögunum kveðið á um ákveðna tilhögun um undirbúning og skipulagningu opinberra framkvæmda innan stjórnsýslunnar.

Opinberri framkvæmd er skipt í fjóra áfanga, frumathugun, áætlunargerð, verklega framkvæmd og skilamat og er málsmeðferð innan hvers áfanga nánar skilgreind í lögunum. Ákvörðun um að hefja verk skal þannig ekki taka fyrr en fullnaðarundirbúningi er lokið svo að unnt sé að gera greiðsluskuldbindingar fyrir verkið í heild og ekki þurfi að koma til þess að lausaskuldir safnist eða verk stöðvist af fjárhagsástæðum. Með þessu er leitast við tryggja samfellt og hagkvæmt framhald verka og þar með sem stystan framkvæmdatíma. Með lögunum var komið á fót framkvæmdadeild við Innkaupastofnun ríkisins og skyldi deildin að jafnaði fara með yfirstjórn verklegra framkvæmda, sbr. 23. gr. laga nr. 63/1970. Samkvæmt 21. gr. laganna skyldi fjármálaráðuneytið, fjárlaga- og hagsýslustofnun, hins vegar fara með fjármálalega yfirstjórn framkvæmdanna. Lögum nr. 63/1970 var breytt í nokkrum atriðum með lögum nr. 32/1984.

Með frv. því sem ég mæli hér fyrir er gerð tillaga um tvær meginbreytingar á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda. Í fyrsta lagi eru breytingar sem leiða af breytingum á lögum um opinber innkaup, sem ég hef hér gert grein fyrir. Stærsta breytingin að þessu leyti er sú að IV. kafli laganna fellur niður þar sem tilgreindar eru ýmsar efnisreglur um opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessi breyting hefur það í för með sér að málum þessum verður komið fyrir í þessum tveimur lagabálkum með mun skýrari hætti en verið hefur að undanförnu.

Í öðru lagi er í frumvarpinu kveðið á um starfsemi og hlutverk Framkvæmdasýslu ríkisins. Í lögum nr. 63/1970 eru ákvæði er snúa að Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins og er gert ráð fyrir því að Framkvæmdasýsla ríkisins hafi samskonar hlutverk samkvæmt frumvarpinu. Ástæðan fyrir þessari breytingu er breytt hlutverk og starfshættir Innkaupastofnunar ríkisins á undanförnum árum. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur í raun starfað sem sjálfstæð ríkisstofnun með hlutverk er snýr að verklegum framkvæmdum. Hlutverk og starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins, sem nú heitir Ríkiskaup, er hins vegar skilgreint í frumvarpi til laga um opinber innkaup. Verkaskipting milli þessara stofnana er þannig skýrð með þessum tveimur frumvörpum.

Til viðbótar þessum tveimur meginbreytingum er gerð tillaga um ýmsar minni breytingar er snúa frekar að lagatæknilegum atriðum en efnisatriðum. Má þar nefna breytingar á ákvæðum er snúa að fjárlaga- og hagsýslustofnun þar sem í frumvarpinu er nú talað um fjármálaráðuneyti. Sömuleiðis breytist nafn Framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar í Framkvæmdasýslu ríkisins eins og hún heitir nú og fjárveitinganefnd breytist í fjárlaganefnd. Þessar breytingar þarfnast ekki frekari skýringa.

Markmið laganna er fyrst og fremst að tryggja faglega málsmeðferð við framkvæmdir sem ríkið stendur að. Þannig eru skilgreind mismunandi stig, ábyrgð, skýrslugerð og uppgjör vegna opinberra framkvæmda. Hinn 5. janúar sl. skipaði ég nefnd til að fara yfir stjórn og skipulag opinberra framkvæmda. Hlutverk nefndarinnar er að kanna hvort ástæða sé til að styrkja einhverja þætti við framkvæmd laganna, annaðhvort með lagabreytingu eða reglugerðarsetningu. Nefndin hefur ekki lokið störfum en það er mat nefndarmanna að frumvarp það sem hér er mælt fyrir marki góðan ramma um skipan opinberra framkvæmda, að lögin sem gilt hafi til þessa hafi haldið gildi sínu vel og að þau séu ekki ástæða þess sem kann að hafa farið úrskeiðis í þessum efnum. Nefndarmenn hafa hins vegar talið að nauðsynlegt sé að efla og styrkja innviði laganna að því er varðar verkferla, verkaskiptingu, boðleiðir og ábyrgðarsvið þeirra aðila er koma að hinum fjórum stigum framkvæmdanna. Mælt er með setningu reglna um nánari skilgreiningu á verklagi og skipulagi hinna einstöku áfanga opinberra framkvæmda, þ.e. frumathugun, áætlunargerð, verklega framkvæmd og skilamat. Eftir að settar hafa verið slíkar reglur í framhaldi af setningu nýrra laga þyrfti í framhaldinu að huga að endurskoðun á Handbók um opinberar framkvæmdir, sem gefin var út af fjármálaráðuneytinu 1991, og taka þá tillit til þeirra breytinga sem umrædd nefnd leggur til.

Ég legg til, herra forseti, að máli þessu verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.