Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 20:12:03 (6501)

2001-04-05 20:12:03# 126. lþ. 107.28 fundur 684. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (iðgjald) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[20:12]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á 3. gr. laga nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, en í greininni er að finna ákvæði um innheimtu lífeyrisiðgjalda bænda.

Frá gildistöku laga þessara um Lífeyrissjóð bænda hafa komið í ljós ýmsir vankantar á innheimtu lífeyrisiðgjalda þeirra sem greiða ber í sjóðinn.

Innheimta iðgjaldanna hefur samkvæmt gildandi lögum farið þannig fram að greiðslu upp í iðgjald yfirstandandi árs hefur annars vegar verið haldið eftir af beingreiðslum þeirra bænda sem þeirra njóta og hins vegar innheimt með gjöldum utan staðgreiðslu á sama hátt og búnaðargjald. Auk þess hefur lífeyrissjóðurinn sjálfur annast innheimtu iðgjalda af bændum í þeim tilvikum þegar um greidd laun hefur verið að ræða en ekki reiknað endurgjald. Þetta verkferli hefur eins og áður segir reynst óheppilegt en samspil þessara tveggja innheimtuleiða, sem bundnar eru í lögum sjóðsins, hefur hamlað eðlilegri starfsemi hans og valdið sjóðfélögum óþægindum. Þessu til viðbótar hefur síðustu tvö ár ekki verið unnt að gera trúverðuga tryggingafræðilega úttekt á sjóðnum vegna óvissu um iðgjaldagreiðslur og réttindaávinnslu.

Haustið 2000 var settur á laggirnar vinnuhópur með fulltrúum ríkisskattstjóra, Lífeyrissjóðs bænda og fjmrn. til þess að finna leiðir til úrbóta í þessum málum. Í samræmi við niðurstöður vinnuhópsins er í frumvarpi þessu lagt til að sjóðurinn annist framvegis sjálfur mánaðarlega innheimtu iðgjalda annarra bænda en þeirra sem beingreiðslna njóta. Jafnframt verði lögð af innheimta samhliða búnaðargjaldi. Enn fremur er lagt til að álagning iðgjalda samkvæmt skattframtölum verði lögð af og eftirlit ríkisskattstjóra með greiðslum í lífeyrissjóð komi í stað hennar.

Í frv. er lagt til að Lífeyrissjóður bænda innheimti sjálfur iðgjöld önnur en þau sem innheimt eru af beingreiðslum eins og áður sagði. Gert er ráð fyrir því að innheimta af beingreiðslum verði óbreytt að öðru leyti en því að hún miðist nú við næstliðinn mánuð í stað yfirstandandi mánaðar.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.