Aukatekjur ríkissjóðs

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 20:32:22 (6509)

2001-04-05 20:32:22# 126. lþ. 107.31 fundur 687. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (starfsemi utanríkisþjónustu o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[20:32]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þá sem eru með stór fyrirtæki munar ekkert um þessi gjöld en þar liggur nýsköpunin ekki. Nýsköpunin liggur hjá litlu fyrirtækjunum. Hjá einstaklingunum sem eru að stofna t.d. prjónastofur eða ég get ekki nefnt það einu sinni, alls konar lítil fyrirtæki, þá munar um 75 þús. kr. fyrir utan allan hinn kostnaðinn, öll smágjöldin sem koma hingað og þangað. Sumir hafa sagt við mig að þeir geri ekkert annað en borga skatta fyrstu mánuðina eftir að þeir stofna fyrirtæki.

Ég skora á hæstv. fjmrh. að skoða þetta atriði því að stóra aðila munar ekkert um þetta en litla aðila munar um það og þar er vöxturinn. Ég vil benda á, og aftur samkvæmt minni, að ég tel að að meðaltali kosti 75 dollara að skrá fyrirtæki í Bandaríkjunum og það er afskaplega lipurt og til eru aðilar sem bjóða þá þjónustu fyrir 45 dollara að skrá fyrirtæki hvar sem er innan Bandaríkjanna innan klukkutíma eða tveggja tíma. Það er kannski skýringin á því hve bandarískt efnahagslíf er öflugt að það er svo auðvelt að skapa nýsköpun þar. Ég skora á hæstv. fjmrh. að skoða hvort ekki sé ástæða til að hætta þessari skattlagningu á nýsköpun jafnvel þó hún hafi verið lengi við lýði og tekin upp af forseta lýðveldisins þegar hann var fjármálaráðherra.