Aukatekjur ríkissjóðs

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 20:33:52 (6510)

2001-04-05 20:33:52# 126. lþ. 107.31 fundur 687. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (starfsemi utanríkisþjónustu o.fl.) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[20:33]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna orðaskipta sem fóru fram milli hæstv. ráðherra og hv. þm. Péturs H. Blöndals. Það er nefnilega til þál. Alþingis frá 1992 eða 1993 um aukatekjur ríkissjóðs og ríkisstofnana. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann kannist ekki við þá ályktun. Í henni er kveðið á um að ekki megi innheimta hærri gjöld en svarar til þess kostnaðar sem að baki liggi þeim gjöldum sem hér um ræðir. Það hefur tekið býsna langan tíma að koma þessari ályktun til framkvæmda ef svo er ekki enn og ég óska eftir því að hæstv. ráðherra fari yfir það og skoði nákvæmlega í ráðuneyti sínu hvort þessi ályktun Alþingis er komin til framkvæmda og ef ekki, að hann geri þá ráðstafanir til að þeirri ályktun verði hrint í framkvæmd. En hún var alveg skýr hvað þetta varðar, að ekki bæri að innheimta hærra gjald en þann kostnað sem lægi að baki þeirri þjónustu sem ríkið veitir og kveðið er á um í þessum lögum.