Skráning og mat fasteigna

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 20:36:15 (6512)

2001-04-05 20:36:15# 126. lþ. 107.32 fundur 688. mál: #A skráning og mat fasteigna# (útgáfa matsskrár o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[20:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hér er mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytngum. Þau lög voru nýlega gefin út í heild sinni með breytingum og eru nú nr. 6 frá 6. febúar 2001.

Megintilgangur þessa frv. er að samræma útgáfu árlegrar fasteignamatsskráar þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um tekjustofna sveitarfélagaa á síðasta haustþingi. Þar var m.a. ákveðið að stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir skuli vera fasteignamat þeirra 31. desember. Fasteignamat ríkisins gefur því út skrá um gildandi fasteignamat þann dag.

Hins vegar skal stofnunin samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna gefa út fasteignamatsskrá 1. desember ár hvert þar sem nýtt framreiknað fasteignamat er birt opinberlega. Með þessu frv. er lagt til að sameina útgáfudag þessara tveggja skráa og hafa hann 31. desember. Það fer vel saman við almenna upplýsingagjöf á sviði fjárhagsmálefna að miða við stöðu í árslok frekar en 1. desember.

Í frv. er jafnframt annað efnisatriði þar sem lagt er til að Fasteignamat ríkisins fái heimild til að taka einstaka eign til endurmats að eigin frumkvæði. Samkvæmt núgildandi lögum geta þeir sem hafa hagsmuni af mati eignar gert kröfu um endurmat. Slík krafa er í langflestum tilvikum sett fram af eiganda, í sumum tilvikum sveitarfélagi og hugsanlega fjmrn. Brýnt er að stofnunin geti samræmt mat þar sem hún verður ósamræmis vör, t.d. íbúða í sama fjöleignarhúsi eða hliðstæðra eininga í atvinnuhúsnæði. Jafnframt skapar þetta stofnuninni svigrúm til endurmats þar sem fasteignamat er í ósamræmi við gangverð eða þegar endurmeta þarf eignir vegna sérstakra ástæðna, t.d. náttúruhamfara og er þar nærtækt að nefna þau hús sem urðu fyrir tjóni á Suðurlandi í jarðskjálftunum síðasta sumar.

Í þriðja lagi er í þessu frv. kveðið á um málsmeðferð beiðnar um endurmat sem stafar frá öðrum fasteignaeiganda ef stofnunin telur forsendur vera til breytinga á fasteignamati. Þar er leitast við að tryggja að málsmeðferð sé ávallt í samræmi við meginreglu stjórnsýslulaga um skyldu stjórnvalds til að tilkynna aðila að mál hans sé til meðferðar hjá því og veita honum kost á að neyta andmælaréttar.

Herra forseti. Fleira er ekki um þetta mál að segja og ég legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.