Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 11:03:02 (6516)

2001-04-06 11:03:02# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[11:03]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér fjöllum við um frv. um Seðlabanka Íslands. Það felur í sér grundvallarbreytingar á lögum um Seðlabankann en ekki er þar með sagt að það feli í sér miklar og afgerandi breytingar á starfsháttum Seðlabankans því að hann hefur að mörgu leyti verið að breyta starfsháttum sínum á undangengnum árum og að hluta til er verið að laga lögin að þessum breyttu starfsháttum. Engu að síður felur þetta frv. í sér grundvallarbreytingar.

Gerð er ítarleg grein fyrir þessum breytingum í greinargerð með frv. og segir þar m.a., með leyfi forseta:

,,Breytingarnar sem felast í þessu frv. til laga um Seðlabanka Íslands þýða að meginmarkmið stefnunnar í peningamálum verður hið sama og annars staðar, hliðstæðar kröfur verða gerðar til Seðlabanka Íslands og gerðar eru til annarra seðlabanka um gagnsæi og fagleg vinnubrögð við mótun og framkvæmd stefnunnar í peningamálum, bankanum verður veitt sjálfstæði til þess að beita tækjum sínum til þess að ná meginmarkmiði laganna og fjárhagslegt sjálfstæði hans eykst við að lokað verður í lögum fyrir möguleika ríkissjóðs á fjármögnun í Seðlabankanum. Á alþjóðavettvangi hefur mikið verið lagt upp úr þessum atriðum í mati á löggjöf seðlabanka. Að frv. samþykktu mundu lögin um Seðlabanka Íslands því líta vel út á þá mælikvarða sem lagðir hafa verið á slík lög á undanförnum árum.``

Hér erum við sem í ýmsum öðrum efnum að laga okkur að því sem hinir gera og að sönnu verður ekki hjá því komist að taka mið af þeim hræringum sem eru að gerast með öðrum þjóðum. Það hafa t.d. verið færð góð rök fyrir því að afnema vikmörk á gengi krónunnar og þá með hliðsjón af breyttu umhverfi, frjálsu flæði fjármagnsins.

Færð hafa verið rök fyrir því í umræðum um peningamálastefnuna að höldum við genginu innan ákveðinna vikmarka eins og gert hefur verið, þá hafi það ekki haft tilætluð áhrif í þessu nýja umhverfi. Aðilar á fjárhagsmarkaði hafi þannig litið á vikmörkin sem eins konar gengistryggingu og þegar vaxtamunur milli Íslands og viðskiptalandanna hafi farið umfram ákveðin mörk þá hafi skapast hvati fyrir markaðsaðila að hagnast á vaxtamuninum. Þeir hafa tekið lán erlendis og endurlánað síðan innan lands á hærri vöxtum. Þetta hefur síðan aukið á útlánaþenslu og raskað stöðugleika á fjármálamarkaði. Þetta finnast mér vera rök sem er vissulega vert að horfa til.

Hins vegar er sú grundvallarbreyting sem er að verða, ekki aðeins hér heldur líka annars staðar, ekki tilefni til mikilla fagnaðarláta af minni hálfu. Ég skal alveg játa það. Á 4. áratug aldarinnar, þegar menn tóku fyrir alvöru að smíða velferðarkerfi, það mun hafa gerst á millistríðsárunum, mun það einhvers staðar hafa verið fest í stjórnarskrá landa að hverjum manni bæri rétturinn til fullrar atvinnu. Út á þetta gekk efnahagsstjórn víða í grannlöndum okkar og þar á meðal einnig á Íslandi. Allt kapp var lagt á að byggja upp velferðarþjónustuna og kapp var lagt á að tryggja fulla atvinnu. Þegar efnahagslífið tók að öðru leyti sveiflur beitti ríkisvaldið og þar með Seðlabankinn, sem var hluti af því, öllum tiltækum ráðum til að verja þessa grunnþætti, velferðarþjónustuna og atvinnustigið í landinu.

Tækin sem ríkisvaldið hafði til þessa voru stjórn á verðlagi gjaldmiðilsins, stjórn á gengi krónunnar. Annað stjórntæki voru vextirnir og í þriðja lagi átti ríkisvaldið jafnan kost á því að pumpa fjármagni inn í efnahagskerfið ef gangverk þess hægði um of á sér. Til þess gat ríkisvaldið snúið sér m.a. til Seðlabankans sem gat veitt ríkissjóði tímabundið lán og sem síðan var veitt út í atvinnulífið, hjól atvinnulífsins snerust örar, eftirspurn jókst, atvinnustigið hækkaði. Þetta eru gamalkunn ráð.

Þetta hafði ýmsa neikvæða þætti í för með sér. Þensla sem varð þannig til byggðist iðulega á verðsprengingu, aukinni verðbólgu. Meira var prentað af peningaseðlum sem var beint út í þjóðlífið og menn deildu iðulega um hvort hér væri um vanhugsaða skammtímaráðstöfun að ræða en hún hafði engu að síður iðulega tilætluð áhrif. Þessi efnahagsstefna, sem hefur verið orðuð við Keynes, Roosewelt og ,,new deal`` í Bandaríkjunum, byggðist á þessari hugsun m.a.

Nýir siðir hafa hins vegar verið að ryðja sér til rúms og í stað þess að breyturnar í efnahagslífinu verði verðbólgustigið þá er núna komin ný breyta til sögunnar og það er atvinnustigið. Seðlabankar víðs vegar í Evrópu og ríkisstjórnir í Evrópu hafa verið að setja í lög um banka sína og hinn evrópski gjaldmiðill byggir einnig á þeirri hugsun að aðeins eitt markmið skuli menn hafa að leiðarljósi og það er verðbólgan. Það er stöðugt verðlag. Þetta eina markmið eigi að verða alls ráðandi og það er það markmið sem er kveðið á um í frv. sem er um að ræða hér. Öll önnur markmið eiga að vera víkjandi. Að vísu segir í greinargerð með frv. og einstökum greinum þess að atvinnustigið skipti máli. Það segir t.d. í athugasemdum við 3. gr., með leyfi forseta:

,,Önnur markmið, svo sem um fulla atvinnu og hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta, eru jafnan mikilvæg markmið efnahagsstjórnar stjórnvalda. Í frv. felst hins vegar viðurkenning á því sem lýst er í almennu athugasemdunum að framan að stjórntæki peningamála henta best til þess að hafa áhrif á verðlag. Því er eðlilegt að setja þeim meginmarkmið í þeim efnum fremur en markmið sem stjórntæki þeirra duga illa eða ekki til þess að ná.``

Það kann að vera mikið til í þessu en ég er að leggja áherslu á að atvinnustigið er þarna orðið víkjandi markmið. Menn trúa því að með því að treysta þann grundvöll sem efnahagskerfið hrærist í, með því að tryggja því stöðugleika í verðlagi muni það leiða af sér hærra atvinnustig, blómstrandi efnahagslíf. En það hefur vikið sem eitt af meginmarkmiðunum sem festa skuli í lög. Það er verðstöðugleikinn sem skal núna settur í lög, enda segir annars staðar í greinargerð með frv. efst á bls. l2, með leyfi forseta:

,,Að sama skapi hefur skilningur vaxið á nauðsyn þess að festa stefnu verðstöðugleika í lög. Með því ávinnst það að mun erfiðara verður að bregða út af stöðugleikastefnu í peningamál um fyrir skammtímahagsmuni.``

Hverjir gætu þessir skammtímahagsmunir verið? Það er atvinnuleysi. Þó þau gleðilegu tíðindi berist frá Evrópu að atvinnuleysi hafi minnkað mikið á síðustu missirum eru engu að síður tæplega 14 millj. manna á Evrópusambandssvæðinu án atvinnu. Í sjálfu Evrópusambandinu er þessi tala heldur lægri, 11,8 millj., tæpar 12 millj. manna eða um 8% en á því svæði sem vísað er til í þeim gögnum sem ég hef aflað mér og talað er um sem Eurozone, þá er talan 13,7 millj. manna, tæplega 14 millj. manna. Þetta er breytan sem er núna komin inn í þessi efnahagskerfi, inn í það markaðsefnahagskerfi sem verið er að smíða. Menn fagna því að sjálfsögðu allir þegar atvinnustigið hækkar, dregur úr atvinnuleysi, en svo vanir eru menn orðnir atvinnuleysinu og svo mikið eru menn farnir að sætta sig við það að það er nánast ekki fréttnæmt að tæplega 14 millj. manna á Evrópusambandssvæðinu skuli vera atvinnulausar. Það er í þessu samhengi sem mér finnst rétt að skoða þessi mál, að Seðlabankanum er núna og verður núna óheimilt að hlaupa undir bagga með ríkisvaldinu til að þjóna skammtímahagsmunum eins og ég vísaði til sem eru þá m.a. þeir að pumpa fjármagni inn í atvinnulífið tímabundið til þess að örva hjól þess og gangverk allt. Þetta finnst mér mikilvægt að komi fram við þessa umræðu.

[11:15]

Að öðru leyti eru þessi lög nokkuð skýr. Þótt sjálfstæði Seðlabankans sé aukið er ekki þar með sagt að hann þurfi ekki að taka tillit til þeirrar stefnu sem lýðræðislega kjörin stjórnvöld fylgja. Engu að síður eru markmiðin þessi. Þau eru orðin mun þrengri en áður var og það er dregið úr möguleikum lýðræðislegra kjörinna stjórnvalda að hafa áhrif og beita stjórntækjum sem áður voru í höndum ríkisvaldsins.

Þar ég kannski kominn að byrjuninni aftur. Seðlabankinn hefur verið að laga sig að þeim breytingum sem hafa átt sér stað annars staðar án þess að hann sé knúinn til þess með lögum. Mér fannst það umhugsunarefni á sínum tíma þegar ríki Evrópusambandsins voru í samræmi við Maastricht-sáttmálann að bisa við að hlíta þeim skilyrðum sem þar voru sett til að geta tekið upp sameiginlegan gjaldmiðil. Þá var Ísland sennilega eitt ríkja sem fullnægði þeim skilyrðum sem sett voru. Þau skilyrði voru m.a. að hlutfall skulda hins opinbera ætti að vera undir tilteknu marki --- ég held að það hafi verið 60% af landsframleiðslu --- að verðbólgustigið ætti að vera lágt og ætti að vera stöðugt. Það hafði verið það þegar þessi umræða fór fram, á milli 2 og 3%. Það var helst á sviði vaxtanna sem við vorum veik á svellinu því að vaxtastigið hefur eins og kunnugt er verið hærra á Íslandi en annars staðar. Að því hefur hins vegar verið stefnt að reyna að ná vöxtunum niður.

Ég er að vekja athygli á því að hægt er að ná markmiðum sem maður setur sér án þess að vera knúinn til þess með lögum. Ég velti því fyrir mér þegar stjórnvöld eru að festa sig með þessum hætti með lögum hversu hyggilegt það er, hvort ekki sé heppilegra að hafa meira svigrúm í lögum til lýðræðislegra ákvarðana. Hins vegar geri ég mér fyllilega grein fyrir því að ríkisstjórnir vilja iðulega verja sig með lögum, þá gegn fólkinu. Þegar krafan kemur um innspýtingu í efnahagslífið við erfiðar aðstæður í efnahagslífinu, við mikið og vaxandi atvinnuleysi, þá vilja þær geta varið sig og sagt: Okkur er ekki heimilt að gera þetta samkvæmt lögum. Slíkt hefur verið mjög uppi í málflutningi evrópskra ráðamanna, hinna miklu jafnaðarmanna í Evrópu sem ríkisstjórnin er hvött til að taka sér hér til fyrirmyndar. Þegar þeir hafa verið með niðurskurðarsveðjurnar á lofti og verið að veikja og skera niður og höggva niður velferðarþjónustu um alla Evrópu á undanförnum árum þá hefur þeim þótt það mjög gott, það hefur verið þeim skálkaskjól að eiga stoð í samþykktum Evrópusambandsins, t.d. frá Maastricht. ,,Við verðum að ná ríkisskuldunum niður. Við verðum að einkavæða. Við veljum að selja mjólkurkýrnar. Við verðum að komast undir þau mörk sem Evrópusambandið setur okkur.`` Þannig hafa ákvæði af þessu tagi verið notuð beinlínis til þess að réttlæta niðurskurðinn og til þess að standast kröfur sem koma frá fólkinu þegar mótmæli eru höfð uppi.

Þessar vangaveltur fannst mér rétt að kæmu fram. Mér finnst margt í þessari lagasetningu vera skiljanlegt. Við erum að laga okkur að breytingum sem við ráðum ekki við hvort sem við erum sátt við þær eða ekki. Ég vísaði þar til gengisstefnunnar og hvaða áhrif það hefur haft þegar fjármagnseigendur, fólk, fyrirtæki og sjóðir sem eru að braska með peninga hafa átt ákveðna tryggingu í gengi hvort sem það er fast eða innan tiltekinna vikmarka og hafa getað farið með peninga inn í landið og hagnast á miklum vaxtamun hér. Þetta er að sjálfsögðu óheilbrigt þótt hitt finnist mér alla vega skipta máli, að geta ráðið verðlagi á gjaldmiðli okkar og þá vísa ég í það sem ég hef sagt hér fyrr og hvernig við höfum beitt þessu tæki til verndar atvinnustiginu til að tryggja að sem flestir Íslendingar, helst allir, hafi fulla atvinnu.