Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 11:38:13 (6520)

2001-04-06 11:38:13# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[11:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að við skoðum þessi mál, ekki bara þetta frv. heldur mörg önnur, í ljósi breyttra áherslna í efnahagsstjórn í okkar heimshluta. Ein birtingin á þeirri stefnu er að binda í landslög að verðlagi skuli haldið lágu og stöðugu.

Á sama tíma hefur það verið að gerast á undangengnum árum og áratugum að önnur lög og önnur markmið eru felld úr gildi, þar á meðal rétturinn til vinnu. Ég var að vekja athygli á því að sú stefna sem fylgt hefur verið í Evrópusambandinu þar sem áhersla er lögð á slíka stefnu hefur ekki orðið til að uppræta atvinnuleysi nema síður sé. Það er breytan sem allir telja vart lengur vert að ræða um. Það fer afskaplega lítið fyrir umræðu um það í Evrópusambandsríkjunum að þar sé atvinnuleysi, að þar séu 14 millj. manna án atvinnu. Þessi markmið hafa verið tekin út úr lögum, út úr stjórnarskrám, og vikið fyrir öðrum markmiðum, þar á meðal verðlagsmarkmiðum. Ég er að hvetja til þess að við skoðum allar þessar breytingar í ljósi heildstæðrar stefnu.