Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:07:27 (6527)

2001-04-06 12:07:27# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:07]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði réttilega að heilbrigt atvinnuleysi væri hugtakanotkun sem færi í taugarnar á mörgum. Ég er í þeim hópi. Í mínum huga er ekki til neitt sem heitir heilbrigt atvinnuleysi. Einn atvinnulaus maður er einum atvinnulausum of mikið. Atvinnuleysi er ekki aðeins slæmt fyrir einstaklinginn heldur einnig efnahagslífið. Atvinnuleysið dregur úr eftirspurn. Sömu áhrif hefur reyndar misskipting í þjóðfélaginu.

Ég vildi hins vegar taka undir og ítreka spurningu til hæstv. forsrh. varðandi auglýsingar á stöðum. Hæstv. forsrh. segir að við stöndum frammi fyrir tveimur valkostum: að auglýsa eða plata. Menn taka þann kostinn að hætta að auglýsa og telja sig þar með hætta að plata fólk. Þá á að gera þetta gegnsætt, segir hæstv. forsrh. Hverjar eru hinar gegnsæju reglur? Vistarverur Stjórnarráðsins hafa ekki reynst mjög gegnsæjar. Ég held að við séum ekki að gera þessi mál gegnsærri. Seðlabankastjóri og stjórnendur Seðlabankans eru ráðnir til langs tíma. Ríkisstjórnir sitja hér í stuttan tíma, fjögur ár í senn. Mér finnst eðlilegt að þessar stöður séu auglýstar og reynt sé að komast að niðurstöðu á faglegum nótum.