Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:15:29 (6532)

2001-04-06 12:15:29# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:15]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég reyndi að færa rök að áðan þá tel ég að ástæðan fyrir þessari skipun til að mynda hjá Englandsbanka sé sú að fjármálaráðherrann, Gordon Brown, hafi ekki viljað ganga skrefið til fulls. Hann vildi ekki færa valdið til fulls til bankans og gera seðlabankann sjálfstæðan sem því næmi og þess vegna hafði hann þetta millistig þannig að það væri ekki bara bankinn sem kæmi að þessu heldur ýmsir aðrir aðilar, þar með taldir aðilar sem hann skipaði til að taka þátt í þessari ákvörðun. Ég tel að við göngum hins vegar lengra.

Ég nefndi líka varðandi fjölda bankastjóranna að ég teldi eðlismun á því hvort um væri að ræða viðskiptabankastjóra þar sem menn tækju viðskiptalegar ákvarðanir eða hvort um væri að ræða bankastjóra af því tagi sem er í seðlabanka þar sem menn eru að fjalla um efnahagspólitíska hluti. Ég vakti athygli á því að sums staðar annars staðar, til að mynda hjá jafnaðarmönnum í Svíþjóð, sem hv. þm. hefur verið að hvetja menn til þess að fara svolítið eftir, var ákveðið nýlega að fjölga bankastjórum úr þremur í sex þrátt fyrir að þeir séu komnir inn í myntsamstarfið og ættu að þurfa minna á banka að halda eftir að þeir fengu einn sameiginlegan seðlabanka annars staðar. Þetta var nú þannig.

Hvaða skilyrði menn eigi að uppfylla til að geta rækt stöðu seðlabankastjóra þá er það fyrst og fremst náttúrlega almenn skynsemi, í öðru lagi grundvallarþekking á þjóðlífinu, í þriðja lagi víðtæk þekking á efnahagsmálum þjóðarinnar, í fjórða lagi stjórnunarhæfileikar, í fimmta lagi hæfileikinn til þess að geta tekið ákvarðanir o.s.frv. Þetta er nú bara spunnið hér upp úr huga mér. Ég sé að hv. þm. brosir því hann áttar sig á því að hann hefur alla þessa hæfileika sjálfur.