Leigubifreiðar

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:19:51 (6535)

2001-04-06 12:19:51# 126. lþ. 108.19 fundur 633. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:19]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um leigubifreiðar sem er 633. mál á þskj. 1010.

Með frv. er verið að laga lög um leigubifreiðar að breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Þetta á ekki hvað síst um auknar kröfur sem gerðar verða til starfsstéttarinnar og eru gerðar til starfsstéttarinnar og bifreiðastöðva um aukið öryggi.

Öll ákvæði gildandi laga um sendi- og vörubifreiðar eru felld burt í þessu nýja frv.

Þá færist stjórnsýsla málaflokksins og öll umsýsla leigubifreiðamála frá samgrn. til Vegagerðarinnar. Það er í samræmi við eðli málaflokksins og krafna sem gerðar eru til stjórnsýslunnar.

Á höfuðborgarsvæðinu hefur útgáfa akstursleyfa verið í höndum þriggja stéttarfélaga leigubifreiðastjóra. Ráðuneytið telur það fyrirkomulag ekki hafa gefist vel að öllu leyti þar sem erfitt hefur verið að tryggja samræmda framkvæmd félaganna. Vegagerðin mun því, ef þetta frv. verður að lögum, sjá um útgáfu allra atvinnuleyfa og skírteina fyrir afleysingabílstjóra og hafa umsjón með námskeiðum. Auk þess mun Vegagerðin starfrækja gagnagrunn með samræmdum upplýsingum til að umsýsla og skipulag verði einfalt og skilvirkt.

Gert er ráð fyrir að aðgangur að grunnupplýsingum gagnagrunnsins verði mjög takmarkaður og að sjálfsögðu í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá mun Vegagerðin sjá um leyfisveitingar og eftirlit með bifreiðastöðvum, en frv. gerir ráð fyrir mjög aukinni ábyrgð þeirra.

Með frv. er einnig kynnt sú nýlunda að setja megi lágmarksgæðastaðla um þjónustu leigubifreiða. Stöðvarnar hafa gert mismunandi kröfur og engir almennir staðlar hafa því verið til. Er stefnt að því að auka gæði þjónustunnar sem ætti ef vel tekst til að koma öllum almenningi til góða en mun ekki hvað síst bæta ímynd íslenskrar ferðaþjónustu. Það skal þó tekið skýrt fram að um heimildarákvæði er að ræða.

Í frv. er gert ráð fyrir þyngri viðurlögum en í gildandi lögum. Með því er lögð áhersla á aukna ábyrgð og eftirlit bifreiðastöðva með því að reglum sé fylgt, svo og aukinni ábyrgð einstakra leyfishafa.

Samkvæmt gildandi lögum eru kærumál hjá umsjónarnefndum fólksbifreiða á fjórum stöðum á landinu. Úrskurðirnir eru kæranlegir til samgrn. Lagt er til að komið verði á fót einni sjálfstæðri úrskurðarnefnd fyrir allt landið og úrskurðirnir verði endanlegir á stjórnsýslustigi. Með hinu nýja fyrirkomulagi ætti samræmd meðferð mála að verða betur tryggð, en í því felst veruleg réttarbót.

Að lokum er rétt að nefna að frv. felur ekki í sér neinar breytingar á þeim takmörkunum að starfsgreininni sem gilt hafa fram til þessa. Því hefur verið haldið fram að gefa ætti aðgengi þetta frjálst og mundi það leiða til betri þjónustu og lægra verðs. Ráðuneytið er ekki á þessum tíma sannfært um að svo verði raunin. Víða erlendis hefur þetta verið reynt og í sumum tilvikum gefist vel en í öðrum alls ekki.

Að mati ráðuneytisins er þjónusta leigubifreiða almennt góð víðast hvar á landinu og stenst samanburð við erlendar borgir. Álagstoppar um helgar hafa jafnast út eftir að opnunartími skemmtistaða var gerður sveigjanlegri. Á höfuðborgarsvæðinu eru útgefin atvinnuleyfi allt að helmingi fleiri en gengur og gerist um sambærilegar borgir erlendis. Því mætti ætla að þessi þjónusta væri í allgóðu lagi.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.