Leigubifreiðar

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:24:04 (6536)

2001-04-06 12:24:04# 126. lþ. 108.19 fundur 633. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:24]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð uppi um þetta frv. við 1. umr. Hæstv. samgrh. fór yfir þann þátt málsins sem snýr að stjórnsýslu málaflokksins þar sem verið er að færa umsýslu leigubifreiðamála frá samgrn. til Vegagerðarinnar sem má kannski vera í sjálfu sér eðlilegt að gera þó að vissulega vakni spurningar um þegar maður les greinargerðina hvers vegna. Það er a.m.k. undirliggjandi að því er snýr að höfuðborgarsvæðinu að þá hefur þessi útgáfa akstursleyfa t.d. verið frá nóvemer 1999 í höndum þriggja stéttarfélaga leigubifreiðastjóra og síðan er sagt að það fyrirkomulag hafi ekki gefist vel. Sem dæmi megi nefna að mjög erfitt hafi verið að tryggja samræmda framkvæmd félaganna. Ákveðins trúnaðarbrests hafi því miður einnig gætt milli hinna einstöku félaga.

Það væri fróðlegt að fá að heyra meira um þennan lið frá hæstv. ráðherra og þá kannski í fyrsta lagi um það hvort haft hafi verið eitthvert samráð við þessi stéttarfélög við þessa lendingu málsins, hvort þau séu sátt við þessa niðurstöðu og kannski eitthvað örlítið meira um það í hverju þessi trúnaðarbrestur hafi komið fram og af hverju þetta hafi ekki reynst vel.

Að öðru leyti hef ég ekki neina sérstaka athugasemd við að þetta sé fært undir Vegagerðina. Vegagerðin hefur þennan málaflokk hvað varðar aðrar tegundir leyfa og bifreiða þannig að það getur í sjálfu sér verið eðlileg lending.

Það sem ég vildi hins vegar gera svolítið að umtalsefni er það sem hæstv. samgrh. kom inn á í lokin í sínu máli. Það vakna vissulega vangaveltur við lestur þessa frv. hvort ekki hefði verið eðlilegt að stíga það skref að opna þessa atvinnugrein svolítið meira. Hæstv. ráðherra sagði að það væri mat ráðuneytisins að það væri ekki rétt að gera það á þessu stigi, það hefði gefist vel sums staðar og annars staðar ekki. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það hefði verið tekið til alvarlegrar skoðunar að opna atvinnugreinina og gera hana frjálsari en nú er. Það er náttúrlega þjónustan sem við erum að tala um, hvort hægt sé að bæta hana og vissulega er það rétt sem hæstv. ráðherra segir að álagstopparnir hafa dreifst þannig að það er kannski ekki sama biðraðamenningin eftir leigubílum eins og var á meðan öllum var beint inn á sömu klukkustund næturinnar til þess að leita sér að leigubíl. Það var mjög erfitt að bregðast við því ástandi. En maður getur líka velt því fyrir sér hvort kannað hafi verið hver áhrif þess yrðu á t.d. verðlag þjónustunnar ef þetta yrði gefið frjálsara og hvort það mundi ekki koma neytendum til góða líka í lægra verði á þessari þjónustu sem er afskaplega dýr hér. Það var þessi þáttur sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra betur út í, þ.e. hvort þetta hafi verið tekið til alvarlegrar skoðunar í ráðuneytinu og hvort gerð hafi verið einhver úttekt á þessu. Mér fannst það ekki koma skýrt fram í máli hæstv. ráðherra hvort þetta hafi verið kannað af neinni alvöru. Þá á ég við hvort gerð hafi verið ítarleg úttekt á því með tilliti til annars vegar þjónustunnar, sem hæstv. ráðherra minntist á hér áðan, en ekki síður til þess hver áhrif þetta mundi geta haft á verðlagið á þessari þjónustu.