Leigubifreiðar

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:36:18 (6538)

2001-04-06 12:36:18# 126. lþ. 108.19 fundur 633. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:36]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki velt því fyrir sér í tengslum við þetta mál að koma á sambærilegu skipulagi í þessari atvinnugrein og í flestum öðrum atvinnugreinum þannig að aðgangur að henni sé ekki takmarkaður við annað en kröfur um menntun og hæfni til að sinna því starfi sem um er að ræða.

Hér er um að ræða einokunarleyfisveitingar til þess að stunda tiltekna atvinnu. Þetta hefur auðvitað verið vandræðafyrirkomulag alla tíð. Það er hægt að ná öllum markmiðum um gæði þjónustunnar með kröfum til þjónustunnar sjálfrar. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að útskýra hvers vegna er ekki hægt að hafa sambærilegar aðstæður í þessari atvinnugrein og öðrum atvinnugreinum.

Ég er alls ekki á því að líta eigi þannig á að rekstur leigubíla sé samfélagsþjónusta frekar en annar atvinnurekstur, t.d. rekstur matvörubúða eða einhver önnur þjónusta við íbúa á tilteknum svæðum. Þessi atvinnugrein ætti í raun að lúta sömu lögmálum og aðrar atvinnugreinar í landinu.