Leigubifreiðar

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:38:16 (6539)

2001-04-06 12:38:16# 126. lþ. 108.19 fundur 633. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:38]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér hefur verið vakið máls á grundvallaratriði, bæði af hálfu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og af hálfu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur, þ.e. hvort taka eigi upp breytt fyrirkomulag í grundvallaratriðum við skipulagningu á leigubílaakstri. (ÖS: Hvað segir Blair?) Hvað segir Blair? Ég er ekki alveg með það á hraðbergi hver stefna breskra stjórnvalda er en mér er hins vegar kunnugt um stefnuna sem tekin var upp í Svíþjóð. Þar lögðu menn af það fyrirkomulag sem við í grófum dráttum búum við hér, (Gripið fram í: Hverjir skipa ríkisstjórnina?) --- þar eru jafnaðarmenn við stjórn --- opnuðu þetta og gerðu að nánast frjálsri markaðsstarfsemi.

Reynslan af þeirri breytingu, eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, sem kunna að vera takmarkaðar, er slæm. Þetta hefur komið notandanum mjög í koll. Í því samhengi hefur verið bent á verðlagið og vörn fyrir borgarana. Í þriðja lagi er bent á að leigubílastöðvarnar, eins og þær hafa skipulagt starfsemi sína, hafa haft þjónustumarkmiðið í fyrirrúmi, að sjá borgurum fyrir þjónustu alltaf, allan sólarhringinn, ekki einvörðungu á þeim tímum sem eftirspurn eftir þjónustu er mest. Að sjálfsögðu verðum við að taka með í reikninginn allar afleiðingar af kerfisbreytingu ef af yrði. Menn láta þá stjórnast af þeirri eftirspurn sem er fyrir hendi hverju sinni og markaðurinn svarar henni. Á öðrum stundum er eftirspurn lítil og erfitt að halda framboðinu úti, halda leigubílstjórum að störfum.

Þetta er nokkuð sem leigubílastöðvarnar sinna núna með innra skipulagi, sinna þessum þörfum borgaranna. Ég vek athygli á að þetta hefur verið reynt annars staðar og afleiðingarnar ekki verið þær sem menn höfðu gert sér vonir um. Ég tek hins vegar undir að það er sjálfsagt að skoða þessa hluti og reynslu annarra þjóða. En mér segir svo hugur að hún sé ekki jákvæð.