Skipulag flugöryggismála

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 13:36:01 (6546)

2001-04-06 13:36:01# 126. lþ. 108.94 fundur 461#B skipulag flugöryggismála# (umræður utan dagskrár), samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[13:36]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Mikil umræða hefur orðið um flugöryggismál í kjölfar þess að rannsóknarnefnd flugslysa skilaði skýrslu sinni um flugslysið sem varð í Skerjafirði 7. ágúst á síðasta ári með svo hörmulegum afleiðingum sem þekkt er.

Því miður verða allt of mörg slys með hörmulegum afleiðingum. Gildir þá einu hvort um er að ræða slys á þjóðvegum landsins í sívaxandi umferð, á sjó þar sem allra veðra er von eða í flugi þar sem slys eru fátíðari en samt of mörg.

Við verðum að leita allra leiða til þess að fækka þessum slysum. Í flugöryggismálum hefur mikið verk verið unnið á undanförnum árum með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir slys og tryggja að öryggi í flugi sé ávallt sambærilegt við það sem best gerist. Stjórnvöldum ber að skapa aðstæður og umhverfi sem tryggja að þessu markmiði sé náð og fylgt eftir með markvissu starfi og eftirliti.

Við Íslendingar höfum sett löggjöf sem unnið er eftir hvað varðar flugöryggismálin. Löggjöf okkar byggist á alþjóðlegum reglum og nú í auknum mæli evrópskum reglum sem eru strangari og ítarlegri en þær alþjóðlegu. Ég nefni sem dæmi reglugerð um flutningaflug, reglugerð um lofthæfi flugvéla og viðhaldsstöðvar flugvéla.

Flugmálastjórn gegnir lykilhlutverki við framkvæmd þessara reglna. Þar er um að ræða rekstur flugvalla, flugöryggiskerfa á flugvöllum, flugumferðarstjórn, sem er mikilvægur þáttur í öruggri umferð, eftirlit með flugrekstraraðilum, útgáfu skírteina flugmanna og útgáfu flugrekstrarleyfa.

Í þeim tilgangi að efla enn frekar framgang reglna og eftirlit með flugrekendum hef ég, með bréfi dagsettu í gær, falið flugmálastjóra að grípa til eftirfarandi ráðstafana:

1. Að hafa sérstakt eftirlit með flugrekendum sem reka flugvélar í flutningaflugi sem eru undir 10 tonnum að þyngd og geta flutt 19 farþega eða færri.

2. Í byrjun þessa mánaðar var birt auglýsing samgrn. um gildistöku svokallaðra JAR-OPS 1 reglna gagnvart flugrekendum sem reka flugvélar undir 10 tonnum að þyngd. Í bréfi mínu til Flugmálastjórnar er lögð áhersla á að Flugmálastjórn beri að tryggja að öll tímamörk verði virt svo ekki komi til seinkunar á gildistöku þeirra.

3. Varðandi tillögur rannsóknarnefndar flugslysa til Flugmálastjórnar hef ég óskað eftir áætlun stofnunarinnar um á hvern hátt hún muni bregðast við tillögunum.

4. Flugmálastjórn telur að þau úrræði sem lög um loftferðir heimila henni að grípa til, þar með taldar heimildir til að svipta flugrekendur flugrekstrarleyfi, endanlega eða tímabundið, vera ófullnægjandi. Því hef ég ákveðið að skipa starfshóp til að gera tillögur til úrbóta í þessu mikilvæga atriði.

5. Til að auka enn frekar öryggi í flugi tel ég mikilvægt að eftirlit flugmálastjórnar byggist í auknum mæli á skoðunum á vettvangi og úttektum á öryggisþáttum flugreksturs og loftfara.

Rannsóknarnefnd flugslysa er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem sinnir rannsóknum vegna flugslysa, kannar orsakir þeirra og gerir tillögur um úrbætur. Ég hef sem samgönguráðherra enga heimild til afskipta af störfum hennar og get ekki gefið nefndinni fyrirmæli um endurupptöku mála. Það ætti hv. frummælanda að vera vel ljóst að lög setja þær skorður.

Eins og ég gat um áðan er Ísland aðili að umfangsmiklu samstarfi þjóðanna vegna flugöryggismála. Það skiptir miklu máli til þess að tryggja sem best að við fylgjumst með því sem er efst á baugi og setjum öryggisreglur bæði gagnvart flugrekstraraðilum og flugmönnum svo öryggis megi gæta sem mest og best. Af þessu tilefni hef ég ákveðið að óska greinargerðar Alþjóðaflugmálastofnunarinnar sem feli í sér mat á stöðu flugöryggismála á Íslandi byggt á úttekt stofnunarinnar sem gerð var í september sl.

Það er grundvallaratriði að trúnaðarsamband ríki á milli flugmálayfirvalda og almennings og að flugfarþegar geti treyst því að öryggisreglum sé réttilega framfylgt og að öryggiseftirlit sé fullnægjandi. Tryggja þarf að öllum aðilum sem flug stunda sé ljóst það hlutverk og sú ábyrgð sem viðkomandi gegnir í flugöryggismálum. Efla þarf samvinnu allra hlutaðeigandi með það að markmiði að tryggja skilvirkari framkvæmd öryggismála í flugi.