Skipulag flugöryggismála

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 13:41:04 (6547)

2001-04-06 13:41:04# 126. lþ. 108.94 fundur 461#B skipulag flugöryggismála# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Því miður verða hörmuleg slys oft tilefni til þess að við ræðum um öryggismál á hinu háa Alþingi. Þetta hafa verið slys í umferðinni og nú flugslys sem varð um síðustu verslunarmannahelgi. Við rannsókn þessa flugslyss hefur komið í ljós að öryggiseftirliti þessa flugs og reksturs flugfélagsins var á ýmsan hátt ábótavant en einnig að skipulag flugöryggismála hefur og marga veika hlekki. Ljóst er að orsök slyssins megi rekja til samverkandi þátta, þ.e. bæði í öryggiseftirliti og flugrekstri.

Herra forseti. Það er erfitt að ræða skipulag flugöryggismála í skugga svo hörmulegs slyss. En við verðum að læra af þeim mistökum sem í ljós hafa komið við rannsókn slyssins, bæði hjá rekstraraðila flugvélarinnar og eins Flugmálastjórnar Íslands.

Herra forseti. Það eru margir sem verða að treysta á flug sem almennar samgöngur og það hlýtur að vera sjálfsögð krafa farþega að fyllstu öryggiskröfur séu gerðar til flugrekstraraðila og að allt eftirlit sé samkvæmt lögum og reglum. Sjúkraflugið er sérstaklega viðkvæmt hvað varðar alla öryggisþætti þar sem oft verður að fljúga við erfiðari veðurskilyrði en leyfð eru við almennt farþegaflug. Við skulum líka staldra við og athuga það umhverfi sem flugfélögin búa við.

Það er ljóst að frjáls samkeppni í innanlandsfluginu gengur ekki upp því markaðurinn er of lítill. Útboð á flugleiðum og stöðug krafa um að halda niðri flugfargjöldum á lágu verði og halda rekstrarkostnaði flugfélaganna niðri getur haft áhrif á að það sé slakað á öryggi og ýmsum öryggisþáttum sé ýtt til hliðar. Ég vil fagna orðum hæstv. samgrh. um beiðni hans um úttekt Alþjóðaflugmálastjórnarinnar á öryggismálum í flugi.