Skipulag flugöryggismála

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 13:43:19 (6548)

2001-04-06 13:43:19# 126. lþ. 108.94 fundur 461#B skipulag flugöryggismála# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Sú umræða um öryggismál í flugi sem er uppi hefur komið í kjölfarið á hörmulegu slysi í Skerjafirði í sumar. Varðandi það vil ég taka fram nokkur lykilatriði að mínum dómi.

Rannsóknir flugslysa hafa um langt árabil verið í höndum rannsóknarnefndar flugslysa sem hefur verið gefið hlutverk með löggjöf þar um og hefur mikið sjálfstæði í störfum sínum eins og hér hefur fram komið. Eitt af lögbundnum verkefnum rannsóknarnefndarinnar er að gera tillögur til úrbóta í framhaldi af áliti sínu. Þetta gerði flugslysanefndin núna í samræmi við þau lög sem gilda um starfssvið hennar.

Mér finnst aðalatriðið í framhaldinu að fylgja þessum tillögum eftir og fylgja eftir tillögum almennt um öryggismál í flugi og gera þær úrbætur sem gera þarf og draga lærdóm af þeirri hörmulegu reynslu sem er að baki.

Rætt hefur verið hvort kalla eigi rannsóknarnefnd flugslysa fyrir samgn. Ég á sæti í þeirri nefnd og ég vil vísa til þess í því sambandi að það slys sem hér um ræðir er í lögreglurannsókn. Mér finnst ekki eðlilegt að rannsóknarnefndin sé kölluð fyrir samgn. meðan sú rannsókn stendur yfir. Hins vegar hefur flugmálastjóri verið kallaður fyrir nefndina og það hefur verið ítarlegur fundur með honum. Mér finnst það aðalatriðið að flugmálayfirvöldum sé veitt aðhald og veittur styrkur og afl til að auka eftirlitið og auka traust á bæði leiguflugi og farþegaflugi. Það traust hefur verið mikið og því þarf að viðhalda. Það er hlutverk okkar í Alþingi að fylgja því eftir.