Skipulag flugöryggismála

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 13:52:33 (6552)

2001-04-06 13:52:33# 126. lþ. 108.94 fundur 461#B skipulag flugöryggismála# (umræður utan dagskrár), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Mörður Árnason:

Virðulegi forseti. Grundvallaratriði, sagði hæstv. samgrh., er það að trúnaðarsamband ríki milli almennings og flugmálayfirvalda. Ríkir það nú? Ég held að það orð sem næst kemst því að lýsa því ástandi sem ríkir milli flugmálayfirvalda og almennings sé trúnaðarbrestur. Hvað er samgrh. að gera í því máli? Vill hann að óvilhallur aðili fari yfir skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa? Nei, hann vill það ekki. Hann telur að rannsóknarnefnd flugslysa hafi sinnt starfi sínu og hann geti ekki skipt sér af því. Það er enginn að biðja hann að taka þessa rannsóknarnefnd upp aftur heldur að koma aftur á því trúnaðarsambandi sem þarf að vera samkvæmt hans eigin orðum.

Það skiptir líka máli um það trúnaðarsamband að flugmálayfirvöld liggi ekki undir neinum þeim grun sem rökstuddur kann að þykja. Hvernig er flugmálastjórninni háttað? Er það þannig að við séum með þetta fína og góða kerfi þar sem embættismenn koma fram fyrir hönd almennings? Nei. Í augum almennings er það akkúrat öfugt að flugmálastjóri er einhvers konar miðaldagreifi sem hefur fengið flugmálin nánast að léni og lítur einkum á sig sem hagsmunavörð flugrekendanna en ekki sem þjón almennings að líta eftir því hvernig málin eru á þessu sviði. Við sjáum þetta í orði og æði hjá flugmálastjóra. Við sjáum það m.a. á upplýsingagjöfinni sem sífellt þarf að heimta og kvarta eftir.

Við sjáum það t.d. á því að í DV í dag er greint frá því að aðstandendur fengu að komast í gögn, sjá radarmyndir og heyra upptökur. Það er afar sjaldgæft, segir þar, að Flugmálastjórn leyfi almenningi að komast í þessi gögn. Í þessum stíl hefur upplýsingagjöf Flugmálastjórnar verið. Hún hefur ekki svarað fjölmörgum spurningum. (Forseti hringir.) Hún hefur t.d. ekki svarað, svo ég nefni ekki nema eina spurningu, hvað 7--8 ríkisstarfsmenn frá flugmálastjóra voru að gera í Vestmannaeyjum þann dag sem slysið varð. Nú hefur samgrh. tækifæri til þess að svara upplýsingum. (Forseti hringir.) Hann hefur t.d. tækifæri til að svara þeim upplýsingum sem hljóta að liggja á að hann svari, eftir að hann og annar hæstv. ráðherra hafa undanfarna daga sagt upp samningum við við flugrekenda þann sem hér um ræðir. (Forseti hringir.) Af hverju er það nógu gott fyrir almenning sem ekki er nógu gott fyrir farþega ríkisins?