Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 14:16:39 (6557)

2001-04-06 14:16:39# 126. lþ. 108.20 fundur 634. mál: #A fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi# (heildarlög, EES-reglur) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég verð alltaf dálítið hissa á að sjá ný og ný mál hér á Alþingi þar sem viðhaldið er fyrirkomulagi sem hefur ekki dugað og er alls ekki í takt við atvinnulífið að öðru leyti. Mér finnst reyndar að þurft hefði að taka miklu fyrr á þessum sérleyfismálum og að hæstv. ráðherra hefði átt að ganga harðar fram í að koma á sams konar skipulagi í þeirri atvinnugrein sem hér um ræðir og í öðrum. Hann hefði átt að leggja til að strax og þau sérleyfi sem nú eru til staðar mundu renna út þá kæmist sjálfkrafa önnur skipan á þessi mál. Ég tel það umhugsunarefni hvernig svæðin fyrir þessa þjónustu eru skilgreind og hvort sveitarfélög geti þá komið að því, þ.e. að með skilgreiningu á þeirri þjónustu sem viðkomandi svæði hefur verið markað verði hægt að tryggja fólki almenningssamgöngur.

Það er hins vegar aftan úr öldum að halda áfram að úthluta á skrifborði ráðherra sérleyfum til atvinnurekstrar á Íslandi. Það fyrirkomulag gengur ekki en í þeim tilfellum þyrfti að bjóða út verkefnin. Ég held að best sé að láta atvinnulífið leysa þessi mál sjálft að mestu. Telji menn sig hins vegar þurfa að ná þjónustumarkmiðum með því að skilgreina svæði þar sem þeim sem fengju tiltekin leyfi yrði skylt að veita ákveðna þjónustu, þá þyrfti auðvitað að bjóða út verkefnið.

Ég lýsi því yfir að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með að menn ætli að viðhalda þessu fyrirkomulagi. Mér finnst það ekki rök í málinu að fyrirtækin sem veita þessa þjónustu núna séu illa stödd. Þau hafa haft sérleyfi fram að þessu. Hvers vegna eru þau illa stödd? Það er einfaldlega vegna þess að ekki hefur verið nægilegt framboð á verkefnum á þessu sviði. Þessi fyrirtæki hafa t.d. ekki sameinast um þjónustuna, samnýtt bíla og komið á betra fyrirkomulagi. Það getur hver maður séð sem hefur fylgst með því hvernig sérleyfishafar hafa keyrt hver á eftir öðrum með tóma bíla um sömu vegina. Þeir hafa haft þetta sérleyfisfyrirkomulag sem greinilega hefur komið í veg fyrir þá þróun sem annars hefði orðið.

Hæstv. ráðherra hefur reynt að beita sér fyrir því að þetta verði endurskipulagt og gefur til kynna að tíminn fram að því að frjálsari skipan kemst á geti orðið einhver gósentími fyrir þessa aðila og þeir verði fjárhagslega betur staddir að þeim tíma liðnum. Það kann að vera. Ég ætla ekki að spá neinu um það. Mér finnast það ekki rök í málinu. Það er fyrst og fremst ástæða til að taka á þessum hlutum sem allra fyrst þannig að þjónustan aukist frá því sem hún er núna og óhagkvæmar rekstrareiningar, þar sem menn hafa verið að keyrt tóma bíla hver eftir öðrum á sömu leiðunum, leggist niður. Í staðinn mundu taka við fyrirtæki sem veittu þjónustu þar sem hagkvæmni væri gætt.

Ég veit, eins og ég sagði áðan, að hæstv. ráðherra hefur reynt að beita sér í því að koma á betri skipan í þessum málum. En ég hefði talið fulla ástæðu til að láta eðlilegar reglur, sambærilegar við þær sem gilda almennt í atvinnulífinu, ganga yfir þessa atvinnugrein.