Lögskráning sjómanna

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 14:40:51 (6563)

2001-04-06 14:40:51# 126. lþ. 108.21 fundur 635. mál: #A lögskráning sjómanna# (breyting ýmissa laga) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[14:40]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um lögskráningu sjómanna. Það er mál nr. 635 á þskj. 1012.

Með frv. er lagt til að lögum um skráningu sjómanna, siglingalögum og lögum um eftirlit með skipum verði breytt í þeim tilgangi að tryggja að allir sjómenn á íslenskum skipum séu slysa- og líftryggðir.

Í lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum, er í 2. gr. kveðið á um að skylt sé að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á íslenskum skipum sem eru 12 rúmlestir brúttó eða stærri. Einn megintilgangur með lögskráningu sjómanna er að ganga úr skugga um að áhöfn skips sé líf- og slysatryggð með fullnægjandi hætti, en lögskráning sjómanna fer fram á útgerðarstað skips og er framkvæmd af sýslumönnum og tollstjóra í Reykjavík. Segja má að tilgangur lögskráningar sé einkum:

1. að fyrirliggjandi séu upplýsingar um áhöfn skips hverju sinni,

2. að áhöfn skips hafi tilskilin atvinnuskírteini til starfa á skipum,

3. að áhöfn skips sé líf- og slysatryggð með fullnægjandi hætti,

4. að sannreyna siglingatíma vegna öflunar atvinnuskírteinis á skipi,

5. að áhöfn hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna og

6. grundvöllur fyrir skattafslætti sjómanna.

Við lögskráningu er miðað við að fyrir liggi yfirlýsing frá viðkomandi tryggingafélagi um líf- og slysatryggingu skipverja og á lögskráningarstjóri að ganga úr skugga um að tryggingin sé í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga.

Lög um lögskráningu sjómanna kveða á um að ef útgerðarmaður vanrækir að hafa líf- og slysatryggingu í gildi þá sé hann ábyrgur fyrir viðkomandi bótagreiðslum. Þess eru dæmi að slys hafi orðið á bátum sem ekki er skylt að lögskrá á og sjómenn hafi slasast eða farist án þess að hafa verið líf- eða slysatryggðir. Megintilgangur frv. er að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.

Með breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna er lagt til að taka upp mælieininguna brúttótonn í stað brúttórúmlesta. Það er í samræmi við alþjóðareglur sem Ísland hefur gerst aðili að. Í gildandi lögum um lögskráningu sjómanna er miðað við að skylt sé að lögskrá á skip sem eru 12 brúttórúmlestir og stærri. Hér er lagt til að skylt verði að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á skipum sem eru 20 brúttótonn og stærri og skráð hér á landi. Það er svipaður fjöldi skipa og er undir 12 brúttórúmlestum.

Ekki þykir ástæða til að kveða á um lögskráningarskyldu allra skipa, þ.e. skipa undir 20 brúttótonnum, þar sem fjöldi þeirra er mjög mikill, sjósókn er óregluleg og verulegt óhagræði og kostnaður mundi fylgja því að leggja slíka skyldu á útgerðarmann eða skipstjóra þeirra skipa.

Með breytingu á siglingalögum er lagt til að áhafnir skipa sem ekki er skylt að lögskrá á, þ.e. skipa undir 20 brúttótonnum, séu tryggðar með sama hætti og áhafnir skipa sem skylt er að lögskrá á og að útgerðarmanni sé skylt að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum sem á hann kunna að falla samkvæmt siglingalögum.

Með breytingu á lögum um eftirlit með skipum er kveðið á um að skip minni en 20 brúttótonn fái ekki útgefið haffærisskírteini, nema fyrir liggi yfirlýsing tryggingafélags um áhafnatryggingu samkvæmt siglingalögum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgn.