Hollustuhættir og mengunarvarnir

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 14:58:43 (6570)

2001-04-06 14:58:43# 126. lþ. 108.22 fundur 602. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (grænt bókhald o.fl.) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Því ber að fagna að hæstv. umhvrh. hafi lagt fram frv. til laga þar sem kveðið er á um að taka skuli upp grænt bókhald starfsleyfisskyldra fyrirtækja hér á landi. Þetta er vissulega mikið framfaraskref í umhverfisvernd. Ég vil þó gera þann fyrirvara að fulltrúar Samfylkingarinnar í hv. umhvn. munu auðvitað skoða frv. ítarlega, sérstaklega með tilliti til 2. gr. frv. Þar er vísað er til þess, í athugasemd með henni, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að útfæra þarf nánar reglur um færslu græns bókhalds, framsetningu skýrslna um grænt bókhald, upplýsingar sem þar skulu koma fram, skilafresti á skýrslum um grænt bókhald, aðila sem heimilt er að skila grænu bókhaldi án þess að þeim sé það skylt og endurskoðun þess og birtingu. Gera þarf ráð fyrir möguleika á sérstakri framsetningu til verndar upplýsingum um viðkvæm samkeppnismál. Einnig er gert ráð fyrir að það sé mismunandi eftir tegundum fyrirtækja hvaða upplýsingar er eðlilegt að fara fram á að tilgreindar verði í skýrslu um grænt bókhald. Þessi atriði verða útfærð nánar, annars vegar í reglugerð og hins vegar með leiðbeiningum, sbr. 3. gr. Haft verður samráð við hagsmunaaðila við undirbúning reglugerðarinnar.``

Það er alveg ljóst, herra forseti, að hér er um mjög veigamikla reglugerð að ræða. Það mun því vafalaust verða rætt í hv. umhvn. hvað þurfi að koma fram í slíkum reglum og slíkum leiðbeiningum, sem skipta auðvitað mjög miklu máli svo að tilgangi frv. sé náð að öllu leyti.

Í annan stað langar mig að taka undir orð hæstv. umhvrh. um að eðlilegt sé að græna bókhaldið sé í mörgum tilvikum skref í þá átt að taka upp umhverfisstjórnunarkerfi. Það hefur sýnt sig að umhverfisstjórnunarkerfi er í raun nútímastjórntæki. Ég hygg að sem flest fyrirtæki ættu að taka það upp, hvort sem þar er um að ræða starfsleyfisskyld fyrirtæki eða önnur. Það er mín von að grænt bókhald verði til þess að sem flest fyrirtæki hér á landi taki einnig upp umhverfisstjórnunarkerfi.