Hollustuhættir og mengunarvarnir

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 15:04:15 (6572)

2001-04-06 15:04:15# 126. lþ. 108.22 fundur 602. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (grænt bókhald o.fl.) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri ágætu umræðu sem hér hefur orðið um þetta ágæta mál. Ég tók eftir því að fulltrúi Samfylkingarinnar, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, gerði 2. gr. að umtalsefni. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm., að reglugerðarsmíðin er mikilvæg. Ef vel tekst til mun grænt bókhald hafa veruleg áhrif á starfsemi fyrirtækja á Íslandi að mínu mati. Auðvitað þarf að koma fram í reglugerðinni hvaða upplýsingar menn eiga að setja inn í grænt bókhald og hvenær eigi að hlífa fyrirtækjum við að færa grænt bókhald, sem ég býst ekki við að verði oft. Ég held að það verði alger undantekning frá reglunni að menn fái að víkja sér undan því að færa grænt bókhald.

Það er líka rétt sem hér hefur komið fram að græna bókhaldið mun að öllum líkindum stuðla að því að fleiri fyrirtæki taki upp umhverfisstjórnunarkerfi vegna þess að menn munu sjá að það er ekki mjög mikið mál að færa græna bókhaldið og menn munu líka sjá að það er sparnaður í að huga betur að umhverfismálum fyrirtækja. Það kom sérstaklega fram í máli hv. þm. Þuríðar Backman sem líkti græna bókhaldinu við heimilisbókhald.

Ég tek svo sannarlega undir það að fyrirtæki munu sjá á skýrari hátt orkunotkun, hvernig þau nýta hráefni sitt, hve mikill úrgangur kemur frá fyrirtækjum o.s.frv. En það hafa menn einmitt verið að prófa í annarri starfsemi á vegum umhverfismála í dag, það er svokallað GATT-verkefni. Þar hafa menn einmitt verið að fara í nánast eins og grænt bókhald heimila þar sem fólk reiknar út orkunotkun heimilisins o.s.frv. Ég las einmitt um daginn skemmtilegt viðtal við konu í Mosfellsbæ en fjölskylda hennar breytti alveg orkunotkun sinni á heimilinu. Þau höfðu farið skipulega í gegnum orkunotkun sína í heimilisbókhaldinu. Það sama mun gerast hjá fyrirtækjum.

Það er líka ágætt að það komi fram við umræðuna vegna þess að hér er rætt um umhverfisstjórnunarkerfi að tvö íslensk fyrirtæki hafa farið í gegnum umhverfisstjórnunarkerfi, þ.e. erfiðasta, stærsta og fíngerðasta kerfið, þ.e. ISO 14001 staðalinn. Það eru ÍSAL og Borgarplast. Bæði þessi fyrirtæki færa grænt bókhald. Þau tilgreina hvernig þau nota hráefni sitt og orku, hvað verður um orku, hvað verður um úrgang o.s.frv.

Ég vil þakka fyrir umræðuna og vænti þess að umhvn. skoði málið vel í nefnd.