Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 15:08:58 (6574)

2001-04-06 15:08:58# 126. lþ. 108.23 fundur 597. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir, náttúrustofur o.fl.) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir um frv. til laga um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, með síðari breytingum.

Frv. þetta er samið af nefnd sem ég skipaði þann 9. júní 2000 og var falið það hlutverk að gera tillögur um framtíðarstöðu og hlutverk náttúrustofa í kjördæmum, samanber lög nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Nefndin skyldi hafa hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af starfsemi náttúrustofa og hafa það að leiðarljósi að starfsemi þeirra styrki sveitarstjórnarstigið í framkvæmd náttúruverndarmála. Nefndinni var falið að huga sérstaklega að tengslum náttúruverndarnefnda sveitarfélaga og starfsemi náttúrustofa í því sambandi. Þá var nefndinni ætlað að huga að verðandi breytingu á kjördæmaskipan landsins sem kemur til framkvæmda þegar næst verður kosið til Alþingis.

Þær náttúrustofur sem starfræktar eru í dag eru Náttúrustofa Austurlands, Náttúrustofa Reykjaness, Náttúrustofa Norðurlands vestra, Náttúrustofa Suðurlands, Náttúrustofa Vesturlands og Náttúrustofa Vestfjarða.

Við samningu frv. var rætt við forstöðumenn þeirra fimm náttúrustofa sem starfandi voru á þeim tíma til að fá fram viðhorf þeirra til starfsemi náttúrustofa og hlutverks þeirra. Síðasta haust bættist ein náttúrustofa við þegar Náttúrustofu Reykjaness var komið á fót. Þá ræddi nefndin við forstjóra Náttúruverndar ríkisins og jafnframt óskaði nefndin eftir umsögnum stjórna þeirra sex náttúrustofa sem eru starfandi í dag, auk þeirra sveitarfélaga sem standa að þessum náttúrustofum. Nefndin gerði nokkrar breytingar á frv. með hliðsjón af þeim umsögnum sem henni bárust.

Ég mun hér, virðulegur forseti, gera grein fyrir þeim breytingum sem frv. felur í sér.

Gerð er tillaga um að heimilt sé að starfrækja allt að átta náttúrustofur á landinu en í dag eru þær sex eins og áður sagði og því heimilt að fjölga náttúrustofunum um tvær. Ekki er gerð krafa um að staðsetning náttúrustofa verði bundin sérstaklega við kjördæmaskipan eins og nú er þar sem ekki þykir rétt að binda í lög staðsetningu náttúrustofa. Hins vegar væri æskilegt að náttúrustofur dreifðust um landið þannig að öll sveitarfélög hefðu greiðan aðgang að einhverri náttúrustofu.

Gert er ráð fyrir að náttúrustofur verði alfarið á ábyrgð þeirra sveitarfélaga sem að þeim standa en með stuðningi ríkisins sem ákveðinn er í fjárlögum hverju sinni. Sú viðmiðun er sett fram í frv. að framlag ríkissjóðs til reksturs náttúrustofu skuli nema launum forstöðumanns í fullu starfi að viðbættri upphæð sem er allt að jafnhá þeirri upphæð og rennur hún til reksturs náttúrustofu. Framlag ríkissjóðs er háð því skilyrði að þau sveitarfélög sem sjá um rekstur viðkomandi náttúrustofu, leggi að lágmarki fram fjárhæð sem nemur 30% af framlagi ríkisins og að jafnframt liggi fyrir samningur milli umhvrh. og viðkomandi sveitarfélags um rekstur náttúrustofu.

Lagt er til að verkefni náttúrustofa verði skilgreind með skýrum hætti og þau verði aukin. Þannig er náttúrustofum ætluð ákveðin lögbundin verkefni sem án efa styrkir starfsemi þeirra.

Það nýmæli er í c-lið 4. gr. að lagt er til að náttúrustofur veiti náttúruverndarnefndum á starfssvæði stofunnar upplýsingar og ráðgjöf á verksviði hennar. Hlutverk náttúrustofa fellur vel að hlutverki náttúruverndarnefnda og ættu því náttúrustofur að geta styrkt starfsemi nefndanna og þar með sveitarstjórnarstigið í framkvæmd náttúruverndarmála.

Einnig er það nýmæli í e-lið 4. gr. að náttúrustofur annist almennt eftirlit með náttúru landsins, einkum í þeim landshluta sem náttúrustofa starfar. Ákvæðið tekur mið af 7. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, en þar segir að Náttúruvernd ríkisins sé heimilt að fela náttúrustofum almennt eftirlit með náttúru landsins og ber að gera um það samning sem ráðherra staðfestir.

Í samræmi við það að náttúrustofur starfa á vegum sveitarfélaga og á ábyrgð þeirra er lagt til að breytt verði skipan stjórnar náttúrustofu, þannig að viðkomandi sveitarfélög skipi samtals þrjá menn í stjórn náttúrustofu. Formaður stjórnar verður því ekki lengur skipaður af ráðherra eins og nú er heldur af sveitarfélögum sem standa að viðkomandi stofu.

Þá eru í frv. lagðar til breytingar vegna gjaldtöku Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa. Í 1. gr. frv. eru talin upp þau verkefni sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur heimild til að taka gjald fyrir. Einnig er lagt til að náttúrustofum verði veitt heimild til að taka gjald fyrir þau verkefni sem talin eru upp í 6. gr. frv. Þá er að lokum gerð tillaga um breytingu á gildandi lögum hvað varðar framlög og gjafir til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Er þetta gert til að gæta samræmis við það sem gildir um aðrar stofnanir sem heyra undir umhvrn.

Virðulegur forseti. Vegna þessa máls vil ég taka fram að umhvrn. hefur sérstaklega litið til stofnana sinna og möguleika umhvrn. á því að styrkja störf og auka starfsemi á landsbyggðinni. Niðurstaða okkar var að með því að leggja fram þetta frv. sem styrkir náttúrustofur, eykur hlutverk þeirra og mun skapa þeim meiri framlög frá ríkinu sé hægt að styrkja verulega náttúrustofur á landsbyggðinni og skapa þar fleiri störf. Því er hér um frv. að ræða sem skapar ramma fyrir mun meiri starfsemi á náttúrustofum en áður hefur verið. Ég tel því að þetta frv. sé mikilvægt í byggðalegu tilliti.

Hæstv. forseti. Ég hef rakið meginefni frv. og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og umfjöllunar í hv. umhvn.