Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 15:15:15 (6575)

2001-04-06 15:15:15# 126. lþ. 108.23 fundur 597. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir, náttúrustofur o.fl.) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[15:15]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Í frv. um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur eru mörg góð nýmæli. Það sem ég vil fyrst og fremst gera að umtalsefni eru náttúrustofurnar. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í framsögu sinni þar sem hún lagði áherslu á að náttúrustofur dreifðust sem víðast um land og sem flest sveitarfélög hefðu beint samband eða aðgengi að náttúrustofum, þá vildi ég kannski leggja áherslu á aðra og sterkari nálgun við þessa starfsemi.

Skoðun mín er sú, herra forseti, að störf náttúrustofa eins og hérna er verið að leggja til og þau hafa gjarnan þróast séu eðlilegur hluti af staðbundnu starfi, staðbundnum rannsóknum, staðbundnu eftirliti og staðbundinni ráðgjöf um þá þætti sem lögin taka tillit til, til sveitarstjórna og annarra þeirra aðila sem fara þar um höndum eða bera ábyrgð. Þess vegna, herra forseti, finnst mér afar hæpið að setja í lögin þá takmörkun sem hér er gerð tillaga um og kveðið er á um í 2. gr., að ráðherra sé heimilt að leyfa starfrækslu allt að átta náttúrustofa er starfi á vegum sveitarfélaga.

Ég vek athygli á því að hér er í fyrsta lagi um heimildarákvæði að ræða. Það er ekki skylt að gera þetta þó að það sé sett fram sem stefnumið. Ég tel að skoða ætti það að starfræksla náttúrustofa verði í sjálfu sér ekki bundin af neinum fjölda heldur sé það hlutverk og verkefni sem mikilvægt er að ríkið komi að og styðji en heimaaðilar beri ábyrgð á rekstri og framkvæmd þess.

Ef við lítum á reynsluna af þeim náttúrustofum sem hafa verið stofnsettar hefur reyndin verið sú að nánast flestallar hafa þær fyrst og fremst verið studdar af næsta sveitarfélagi. Þó að ætlast hafi verið til þess að náttúrustofurnar yrðu hluti af stærri heild þá hefur sú ekki orðið raunin. Ég tek sem dæmi náttúrustofuna í Stykkishólmi sem ætlunin var að hefði verkefni á öllu Vesturlandi, en reyndin hefur orðið sú að Stykkishólmur, að ég held, stendur einn að henni. Hið sama er með náttúrustofuna á Vestfjörðum eða í Bolungarvík. Að henni standa aðeins örfá sveitarfélög. Svipað er á Norðurlandi vestra. Þar var ætlunin með náttúrustofu, sem fékk aðsetur á Sauðárkróki, að gerður yrði samstarfssamningur við önnur sveitarfélög á Norðurlandi vestra en af því hefur ekki orðið.

Engu að síður eru verkefnin fyrir hendi. Ég held að reynslan sem við höfum enn sem komið er af náttúrustofunum sýni okkur að fyllilega er ástæða til að slíkar náttúrustofur verði hluti af eðlilegu og nauðsynlegu starfi heima fyrir og takmörkun á fjölda þeirra sé ekki bundin í lögum. Eins og er eru stór landsvæði, t.d. svæðið frá Skagafirði og vestur í Bolungarvík, ekki með neina slíka starfsemi í gangi. Það væri ekkert óeðlilegt að hugsa sér að Húnavatnssýslur fengju náttúrustofu ef þær óskuðu eftir því og fjármagn leyfði.

Þess vegna vil ég, herra forseti, leggja áherslu á, eins og er reyndar kveðið á um eða gert er ráð fyrir í 4. gr. laganna, það hlutverk náttúrustofa að starfa í þeim landshluta þar sem náttúrustofan er staðsett og axla þá ábyrgð. Þá verða önnur landsvæði og önnur sveitarfélög sem ekki eiga aðild að þeim stofum --- því að ástæðulaust er að beita þvingunaraðgerðum í að þvinga sveitarfélag til aðildar að rekstri náttúrustofa --- utan við þessa starfsemi, þá ábyrgð og þau verkefni sem gert er ráð fyrir að náttúrustofurnar sinni.

Herra forseti. Ég vil draga það fram að í ljósi reynslunnar af náttúrustofunum eigi ekki að hafa fjöldatakmörk. Það má setja sér stefnumið, að bæta við einni á ári en hlutverk og verkefni þessara náttúrustofa í starfi heimaaðila, í starfi sveitarfélaga og annarra slíkra í héraði er mikilvægt. Ég tel að stefna eigi að því og frv. eigi að taka meira mið af þeim þörfum þegar til framtíðar er litið.