Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 15:28:44 (6578)

2001-04-06 15:28:44# 126. lþ. 108.23 fundur 597. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir, náttúrustofur o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfi mér að benda á þá þversögn í frv. þar sem annars vegar er talað um að takmarka fjölda stofanna en hins vegar er kveðið á um að verkefni þeirra skuli fyrst og fremst vera í nærumhverfi þeirra, enda hefur reyndin verið sú. Tökum t.d., eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir minntist á, stofuna í Stykkishólmi. Sveitarfélög allt að Akranesi hefðu í sjálfu sér átt að vera aðilar að þeirri stofu og við höfum líka heilmikið verkefni eins og lífríki Breiðafjarðar sem var röksemdin fyrir staðsetningu hennar. Ég er þó ekki viss um að Borgarfjarðarhérað eða suðurhluti þess kjördæmis ætti samleið með þeirri stofu frekar en einhverri annarri. Ég held því að huga verði að þessu í stærra samhengi.

Eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir gat um er þetta auðvitað fengur fyrir hvert sveitarfélag sem fær þetta til sín, bæði verkefnið, fjármunirnir og ekki síst möguleikarnir. Það er ekki síst það sem sóst er eftir, verkefnin, möguleikarnir og sýnin. Ég vil þess vegna inna hæstv. ráðherra eftir einu atriði. Mig minnir að í fyrri lögum hafi verið gert ráð fyrr að fleiri aðilar en bara sveitarfélög gætu gerst aðilar að náttúrustofum og staðið að þeim. Er ætlunin að það verði fellt út og séu þá bara sveitarfélögin á móti ríkinu sem gætu gert það?