Úrvinnslugjald

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 15:36:50 (6582)

2001-04-06 15:36:50# 126. lþ. 108.24 fundur 680. mál: #A úrvinnslugjald# frv., 681. mál: #A spilliefnagjald# (umsýsla) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um úrvinnslugjald og frv. til laga um breytingu á lögum um spilliefnagjald, nr. 56/1996, með síðari breytingum.

Í upphafi árs 2000 skipaði ég nefnd til að gera tillögur um aðgerðir sem stuðlað gætu að aukinni endurnýtingu úrgangs og tillögur um lagasetningu í því skyni. Nefndinni er m.a. ætlað að fara yfir þær skuldbindingar sem Ísland hefur tekið á sig með aðild að EES-samningnum hvað varðar úrvinnslu úrgangs og gera tillögur um hvernig þeim verði best náð hér á landi. Hér má nefna tilskipun um umbúðir og umbúðaúrgang sem setur markmið um endurnýtingu og endurvinnslu umbúðaúrgangs og tilskipanir um urðun og ónýt ökutæki. Frv. þetta er unnið af framangreindri nefnd í samráði við umhvrn. og við gerð þess var tekið mið af þeirri reynslu sem fengist hefur af framkvæmd laga um spilliefnagjald, nr. 56/1996.

Spilliefnanefnd hefur starfað frá því í september 1996. Reynslan af starfi nefndarinnar og því heildarkerfi sem hún hefur komið á varðandi spilliefni er því orðin allnokkur. Við undirbúning frv. var m.a. haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samtök fiskvinnslustöðva og Hollustuvernd ríkisins.

Sú leið sem frv. þetta mælir fyrir um, að skapa hagræn skilyrði fyrir úrvinnslu úrgangs, er að meginhluta til sú sama og farin er í lögum um spilliefnagjald, nr. 56/1996, en góð reynsla og víðtæk sátt er um framkvæmd þeirrar löggjafar. Ég mun nú, virðulegur forseti, gera grein fyrir helstu efnisatriðum frv.

Markmið frv. er að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurnýtingu úrgangs í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar. Til að ná fram þessu markmiði er í frv. lagt til að heimilt verði að leggja á sérstakt gjald, svokallað úrvinnslugjald á ökutæki, vinnuvélar, hjólbarða og ákveðna efnisflokka umbúða sem tilgreindir eru í 2. gr. frv. Greiða á úrvinnslugjald af viðkomandi vöru við innflutning og framleiðslu vöru hér á landi þegar tekin hefur verið ákvörðun um að leggja gjald á vöruna. Gjaldið skal standa undir kostnaði við úrvinnslu úrgangs sem af vörunni hlýst en í því felst að gjaldið skuli standa straum af kostnaði við þjónustu vegna reksturs söfnunarstöðva, flutnings frá söfnunarstöðvum til endurnýtingar, móttöku og annarrar úrvinnslu úrgangs.

Í frv. er tilgreind hámarksupphæð úrvinnslugjalds í einstökum vöruflokkum en nefndin skal skipta þeim vörum sem falla undir frv. í flokka eftir því sem við á. Tekjur og gjöld í hverjum flokki skulu standast á og skal hver flokkur vera fjárhagslega sjálfstæður. Þannig skal tryggt að gjald sem lagt er á tiltekna vöru fari einungis í að greiða þann kostnað sem af úrvinnslu þess vöruflokks hlýst. Sérstakri nefnd um úrvinnslu úrgangs ber að sjá um framkvæmd frv. verði það að lögum. Úrvinnslugjald á einnig að standa undir kostnaði sem hlýst af starfsemi nefndarinnar. Nefndin skal fara með stjórn og umsýslu úrvinnslugjalds og framkvæmd málaflokksins sem frv. tekur til.

Í nefndinni skulu sitja þeir sem fara með framkvæmd þessa málaflokks, þ.e. fulltrúar ríkisins, sveitarfélaga og atvinnulífsins. Gert er ráð fyrir að nefndin fari jafnframt með stjórn spilliefnagjalds og annist framkvæmd þeirra laga. Því er samhliða frv. þessu lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um spilliefnagjald.

Í því frv., sem ég mæli hér einnig fyrir, virðulegur forseti, eins og fram hefur komið, er lagt til að nefnd um úrvinnslu úrgangs komi í stað spilliefnanefndar og verði hún skipuð níu aðilum í stað sjö. Þessi breyting er lögð til þar sem hagkvæmara er að sama nefndin fari með framkvæmd þessara tveggja lagabálka verði frv. um úrvinnslugjald að lögum.

Í frv. er tilgreind hámarksupphæð úrvinnslugjalds í einstökum vöruflokkum en gert er ráð fyrir að upphæð gjaldsins verði ákvörðuð í reglugerð samkvæmt tillögum nefndar um úrvinnslu úrgangs. Álagt gjald skal ákvarðað á grundvelli útreikninga, útboða eða verksamninga. Nefndin skal skipta þeim vörum sem falla undir frv. í flokka eftir því sem við á og skulu tekjur og gjöld í hverjum flokki standast á eins og áður segir. Gert er ráð fyrir að heimilt sé að ákveða að hluta úrvinnslugjalds megi nýta sem skilagjald til þess að skila tilteknum úrgangi til viðurkenndrar móttökustöðvar. Má hugsa sér að það verði gert, t.d. varðandi ökutæki.

Við afgreiðslu frv. í ríkisstjórn var ræddur sá möguleiki að gjald fyrir einstakar tegundir úrgangs yrði ákveðið í lögunum og vil ég beina því til hv. umhvn. að það verði kannað sérstaklega við meðferð málsins í nefndinni. Nefnd um úrvinnslu úrgangs skal semja við þar til bæra aðila um vörslu og ávöxtun úrvinnslugjalds en lagt er til að Ríkisendurskoðun endurskoði reikninga nefndarinnar.

Gert er ráð fyrir í frv. að fyrirtækjum og atvinnugreinum sé heimilt að semja sín á milli um ráðstafanir til að auka endurnýtingu og endurnotkun úrgangs, þ.e. að gera svokallað frjálst samkomulag. Ráðherra skal staðfesta slíka samninga og geri hann það má undanþiggja viðkomandi vörur gjaldtöku. Sem dæmi um slíka samninga sem falla undir lög um spilliefnagjald er samningur sem olíufélögin hafa gert um söfnun, flutninga og eyðingu á svartolíuúrgangi. Þessi leið hefur verið farin í Noregi einnig hvað einstaka efnisflokka varðar og gefist ágætlega.

Hæstv. forseti. Ég hef rakið meginefni frv. Ég legg áherslu á að góð sátt er um það frv. sem hér er lagt fram hjá Samtökum atvinnulífsns og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég tel mikilvægt að frv. nái fram að ganga á yfirstandandi þingi þar sem hinn 1. júlí nk. á að ná markmiðum tilskipunar um umbúðir og umbúðaúrgang, um hlutfall endurnýtingar og endurvinnslu umbúða og úrgangs, samanber ákvæði reglugerðar nr. 609/1996, um umbúðir og umbúðaúrgang.

Frv. þetta er m.a. lagt fram til þess að skapa hagræn skilyrði til þess að tryggja betur þá framkvæmd sem framangreind tilskipun mælir fyrir um. Auka þarf endurnýtingu og endurvinnslu tiltekinna efnisflokka til að ná þeim markmiðum sem fram koma í tilskipuninni. Hér er einkum um að ræða pappír, pappa, kartonefni, samsettar umbúðir og plast og því er tekið á þeim efnisflokkum í frv.

Ég legg til, virðulegur forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhvn.