Úrvinnslugjald

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 15:46:42 (6584)

2001-04-06 15:46:42# 126. lþ. 108.24 fundur 680. mál: #A úrvinnslugjald# frv., 681. mál: #A spilliefnagjald# (umsýsla) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég fæ tækifæri til að taka þátt í umfjöllun um málið í umhvn. en mig langar til að segja að ég er afar ánægður yfir því að sjá mál af þessu tagi í Alþingi. Þarna er verið að stíga fyrstu skrefin í þá átt að kostnaðurinn komi réttlátlega niður. Hann þarf auðvitað að gera það. Þegar við eyðum einhverju, kaupum okkur bíl eða eitthvað annað þurfum við auðvitað að taka ákvörðun um kostnaðinn sem fylgir því að eyða því rusli og þeim afgangi sem verður af þeim vörum sem við nýtum okkur. Ég vil einnig segja það áður en ég held áfram að ég held að ég hafi aldrei séð fallegri orð um skatta en það sem er kallað hagræn skilyrði fyrir endurnýtingu. Ég man ekki eftir fallegra orðavali um skattheimtu en þarna er fundið og mér finnst vanta hv. þm. Pétur H. Blöndal í salinn til að ræða þetta. Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með orðavalið.

Það sem mig langaði til að spyrja um í sambandi við þetta er í fyrsta lagi nefndin um úrvinnslu úrgangs. Út af fyrir sig set ég ekkert út á hana en ég vildi að hæstv. ráðherra útskýrði fyrir þingheimi hvort þeir fulltrúar sem hæstv. ráðherra mun velja verði valdir með það sérstaklega í huga að þar komi fram sjónarmið náttúruverndar. Þessi hópur er dálítið einsleitur, samsettur af samtökum úr atvinnulífinu og frá sveitarfélögunum sem ég efast ekki um að hafi náttúruvernd í huga, sérstaklega eftir það mikla námskeið sem fer fram með Staðardagskrá 21 um allt land núna. Mér finnst ástæða til að velta því svolítið fyrir sér hvort samsetning þessa hóps geti hamlað ákvörðunum sem mundu íþyngja t.d. atvinnulífinu og sveitarfélögunum sem hlýtur vissulega að koma upp í starfi þessarar nefndar að það þurfi að taka ákvarðanir sem skipta miklu máli bæði fyrir fyrirtæki og sveitarfélög.

Síðan langaði mig til að spyrja um 9. gr. þar sem fyrirtækjum og atvinnugreinum er heimilt að semja sín á milli um ráðstafanir til að auka endurnýtingu og endurnotkun og þá geti ráðherra undanþegið þessi viðkomandi fyrirtæki gjöldunum. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig eftirliti með slíkum samningum og framkvæmd á því verður fyrir komið, hvort þessir samningar verði bara til og eftir það séu fyrirtækin undanskilin og því treyst að samningarnir verði haldnir eða hvort einhver sérstakur eftirlitsþáttur verði þá sem fylgi því eftir að eins sé staðið að málum og ráðherra hefur skrifað upp á með því að staðfesta þetta samkomulag og undanþiggja viðkomandi fyrirtæki gjöldunum.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta. Fyrst og fremst vil ég láta það koma fram að ég er afar ánægður með frv. Ég veit ekki hvernig færi ef hæstv. ráðherra væri með fleiri mál í dag. Við erum búin að hæla henni svo mikið að ég held að það væri ekki hollt meira í bili.