Úrvinnslugjald

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 16:04:58 (6588)

2001-04-06 16:04:58# 126. lþ. 108.24 fundur 680. mál: #A úrvinnslugjald# frv., 681. mál: #A spilliefnagjald# (umsýsla) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kannski erfitt að gera sér grein fyrir því nákvæmlega hverjir eru fulltrúar náttúruverndar og hverjir ekki. Það er alveg ljóst að ráðherra mun að sjálfsögðu velja aðila í þá nefnd sem hafa áhuga á umhverfismálum og eru líklegir til að standa sig vel í nefndinni og hafa þar af leiðandi náttúruverndarsjónarmið í huga.

Þrátt fyrir að vel tækist til í vali á þessum tveimur fulltrúum ráðherra mun nefndin vinna mjög mikið í þeim anda sem atvinnulífið vill vegna þess að atvinnulífið á meiri hluta nefndarmanna. Að sjálfsögðu er ábyrgð ráðherra mikil sem velur formann í nefndina. Það er alveg ljóst að þegar við munum skipa í nefndina frá hendi ráðuneytisins munum við reyna að gera þá nefnd eins vel úr garði og okkur er unnt. Ég tel sérstaklega mikilvægt að vel takist til strax í upphafi. Vegna þess hve málaflokkurinn er flókinn og viðkvæmur eins og hér hefur komið fram er mikilvægt að vel takist til þannig að menn gefist ekki upp eða áhuginn minnki á að standa vel að úrvinnslu- og endurvinnslumálum. Ég held að ég geti alveg róað hv. þm. Jóhann Ársælsson. Við munum reyna að vanda valið í þessa nefnd.