Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 16:09:16 (6590)

2001-04-06 16:09:16# 126. lþ. 108.26 fundur 201. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sektarákvarðanir Félagsdóms) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[16:09]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli frsm. félmn. ritum við þingmenn Samfylkingarinnar undir þetta nefndarálit og tókum þátt í afgreiðslu málsins í félmn.

Eins og kemur fram í nefndarálitinu er málið allt til bóta ef svo má að orði komast og ekkert stórmál, a.m.k. hvað varðar það að hér er verið að breyta tilvísunum til Vinnuveitendasambands Íslands í Samtök atvinnulífsins vegna þess að Vinnuveitendasambandið er ekki lengur til og Samtök atvinnulífsins hafa tekið við.

Sömuleiðis er verið að lögfesta þau réttindi þeirra sem fundnir eru sekir um afbrot að þeir eigi rétt á að áfrýja máli sínu til æðri dómstóls og geti látið endurskoða sakfellingu eða refsingu. Það er í samræmi við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi. Þetta eru allt breytingar sem eru af hinu góða og tökum við hv. þm. Samfylkingarinnar í félmn. heils hugar undir þessar breytingar og styðjum þær.