Lækningatæki

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 16:15:20 (6593)

2001-04-06 16:15:20# 126. lþ. 108.27 fundur 254. mál: #A lækningatæki# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið skrifa ég ásamt öðrum í heilbr.- og trn. undir nefndarálit um sérstakt frv. um lækningatæki. Hér er verið að auka öryggi sjúklinga. Ég fagna því þessu frv. og vona að það verði að lögum.

Ég vil aðeins benda á að með frv. og mörgum öðrum lagabreytingum til að bæta öryggi, hvort heldur er hjá sjúklingum, í matvælum eða flugöryggi, eins og við ræddum í utandagskrárumræðu í dag, erum við að koma ákveðinni eftirlitsskyldu yfir á ýmsar stofnanir í þjóðfélaginu. Þar má nefna heilbrigðiseftirlitið, Flugmálastjórn og í þessu tilviki landlækni. Við verðum þá að gæta þess að viðkomandi stofnun, landlæknisembættið í þessu tilfelli, fái fjármuni til að ráða starfsmenn til að sinna þessu eftirliti. Við verðum líka að gera upp við okkur hversu virkt eftirlit við viljum að þetta sé, hvort þetta er eingöngu á pappírnum eða hvort það á að vera virkt eftirlit inni á stofnunum og þá kostar það peninga.