Barnalög

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 16:43:41 (6604)

2001-04-06 16:43:41# 126. lþ. 108.34 fundur 314. mál: #A barnalög# (ráðgjöf í umgengnis- og forsjármálum) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[16:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kem upp til að fagna því að hérna er verið að lögfesta atriði sem ég hef talið að komast hefði átt í lög fyrir löngu, þ.e. sérfræðiráðgjöf eða fjölskylduráðgjöf þegar ágreiningur rís vegna umgengni eða forsjár barns við skilnað.

Ég vísa til þingmála sem ég hef flutt og einnig við öll saman þingmenn Samfylkingarinnar um slík mál. Fyrst var að við fluttum þáltill., sem ég var 1. flm. að, um ýmis úrræði til að tryggja betur réttindi barna til umgengni við báða foreldra sína. Við bentum þá á ýmsar leiðir til þess að tryggja þann rétt betur. Meðal annars var rætt um skilnaðarráðgjöf sem hér er verið að lögfesta og hefur það gefist vel víða á Norðurlöndunum, ókeypis skilnaðarráðgjöf og jafnvel skylda til að fara í slíka ráðgjöf við skilnað ef börn eru í hjónabandinu. Hún hefur gefið mjög góða raun og t.d. í Noregi hefur dómsmálum í kjölfar skilnaða, vegna umgengni eða forsjár barna, fækkað eftir að þessi leið var lögfest þar.

[16:45]

Það er eitt annað atriði sem ég hefði gjarnan viljað sjá við þessa breytingu sem er reyndar ekki hér inni. Það er sú leið að barni sé skipaður talsmaður þegar verið er að leysa deilu um umgengni við barnið. Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum öll flutt frv. í þá veru í tvígang. Nú liggur einmitt fyrir allshn. frv. sem ég er 1. flm. að, um að barni skuli skipaður talsmaður á meðan ágreiningsmál um umgengni þess við forsjárlaust foreldri eða nána vandamenn er til meðferðar hjá sýslumanni. Í sama frv. er sýslumanni gert skylt að skipa barni talsmann ef foreldri sinnir ekki umgengnisskyldu við barn sitt og ósk þar að lútandi kemur fram. Slík ósk gæti t.d. komið frá því foreldri sem barnið er hjá eða jafnvel ömmu og afa barnsins þar sem óskað er eftir því að foreldri umgangist barn sitt. Í kjölfar fjölda funda sem ég sótti með einstæðum foreldrum eftir að þáltill. um að tryggja réttindi barna til umgengni við báða foreldra sína kom fram í þinginu, var lögð mjög rík áhersla á það af þessum foreldrum að eitthvert úrræði í þessa veru yrði sett í lög. Ég hefði gjarnan viljað sjá slíka breytingu í þessari lagasetningu en engu að síður, þó að það sé ekki nú, vonast ég til að menn taki vel undir frv. okkar þingmanna Samfylkingarinnar um talsmann barna þegar um ágreining er að ræða í umgengni eða forsjá. Við eigum vonandi eftir að sjá slíka lagasetningu á næstunni.

Vissulega fagna ég því að taka eigi í lög þá leið sem við höfum margsinnis lagt til um fjölskylduráðgjöfina, sérfræðiráðgjöf, en hitt hefði gjarnan mátt fylgja líka. Ég minni á að geysilega mörg börn njóta ekki samvista við báða foreldra sína og verða illa fyrir ef átök eru um umgengni við barnið. Það þarf að leita allra leiða sem færar eru til að tryggja þennan rétt barna til umgengni við báða foreldra sína án þess að þau verði fyrir áföllum á þeim tíma þegar verið er að leysa málin. Við vitum alveg hvernig það er, að það bitnar oft á barninu ef ágreiningur er milli foreldra eða annarra um umgengni eða forsjá barnsins.

Herra forseti. Ég vildi bara nefna þetta atriði þar sem við erum að afgreiða þetta frv. og það er að verða að lögum, að skilnaðarráðgjöf er að komast inn í íslensk lög. En ég vonast til þess að fljótlega verði lögfest sú leið sem við höfum lagt til, m.a. í frv. sem liggur fyrir allshn., að unnt sé að skipa barni talsmann í slíkum málum.