Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 16:52:09 (6606)

2001-04-06 16:52:09# 126. lþ. 108.36 fundur 620. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (kosningarréttur erlendra ríkisborgara) frv., Flm. MÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[16:52]

Flm. (Mörður Árnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 993, 620. máli. Þetta er frv. til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998. Efnislega fjallar það um að erlendir ríkisborgarar allir hafi þann rétt sem danskir, finnskir og norskir ríkisborgarar hafa nú í þessum efnum.

Ég vil fyrst þakka fyrir að þetta frv. er tekið á dagskrá í tæka tíð hvað mig varðar sem ekki var sjálfgefið eins og á stóð.

Réttindi innflytjenda á Íslandi og erlendra manna eru ofarlega á baugi um þessar mundir. Ein ástæðan er sú að þeir hafa aldrei verið fleiri hér á landi, önnur er sú að í öllum heimshluta okkar stendur yfir breyting úr mishreinu þjóðmenningarsamfélagi í fjölmenningarlegt samfélag og upp kemur ýmis vandi sem tengist sambýli fólks af ýmsu þjóðerni og ýmsu tagi en um leið skapast margvísleg tækifæri í þeirri nýju veröld sem við erum að sigla inn í.

Hér er gripið á einum þætti þessa máls, þætti sem hefur verið vanræktur, vil ég segja, og varðar kosningarrétt erlendra ríkisborgara í sveitarstjórnum. Ég þarf ekki að fjölyrða um grundvallarrök málsins, þ.e. rök fyrir því að útlendingar kjósi í sveitarstjórnum vegna þess að við höfum þegar viðurkennt þau grundvallarrök með þeirri breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna árið 1982, að danskir, finnskir, norskir og sænskir menn hafi þennan rétt, kosningarrétt eða kjörgengi, að liðnum þremur búsetuárum á Íslandi. Þá fóru menn í gegnum það hver munur er á því að kjósa á sveitarstjórnarstigi og hinu efra stjórnstigi. Erlendir ríkisborgarar hljóta að ganga að kosningarrétti sínum í heimalandi sínu en þeir eiga hins vegar ekki heima í sveitarlegum skilningi í ríkisfangslandinu heldur í dvalarlandinu. Á því byggist það norræna sjónarmið að erlendir menn fái að kjósa í sveitarstjórnum, a.m.k. af ákveðnu tagi, en ekki í kosningum til þings.

Rétt er að gera sér grein fyrir því að ríkisfang felur í eðli sínu í sér mikilvæg réttindi. Ríkisfangið varðar líka samsemd einstaklingsins, ,,identification`` hans. Í ríkisfanginu eru oft og tíðum falin djúp tilfinningaleg mál og það getur verið erfitt, bæði af réttindalegum ástæðum og tilfinningalegum ástæðum, að breyta ríkisfangi sínu. Þetta hygg ég að menn þekki, kannski einkum af þeim Íslendingum sem búa erlendis og hafa breytt ríkisfangi sínu, hyggjast breyta því eða vilja alls ekki breyta því. Ég hef a.m.k. talað við ýmsa sem líta á það sem mismikið feimnismál að láta hið íslenska ríkisfang sitt og fá hið erlenda í staðinn. Þeir eru auðvitað ekki minni Íslendingar. Þeir vita það sjálfir að þeir eru ekki minni Íslendingar en þeim finnst að hér sé það tákn á ferðinni sem síðast megi falla.

Þess vegna eigum við að virða þá ákvörðun þeirra sem hér dveljast og hafa kannski gert í fjöldamörg ár, munu kannski gera það allt sitt líf, að láta ríkisfang sitt ekki af hendi, verða ekki Íslendingar á formlegan hátt eins og við hin. Við eigum að virða ákvörðunina en taka þeim opnum örmum og líta á þá ef ekki beinlínis sem landa okkar, þá a.m.k. sem sveitunga okkar.

Það var t.d. fáránlegt í höfuðborginni um daginn, í kosningunum um framtíð Vatnsmýrarinnar og flugvallarins hér nálægt okkur, að íbúar til margra ára í höfuðborginni, fólk sem er jafnvel meiri Reykvíkingar en ýmsir þeir sem hingað hafa flust á síðari árum, höfðu ekki kosningarrétt í þessu efni því að kjörskrá sveitarstjórnarkosninga er líka notuð í staðbundnar atkvæðagreiðslur af þessu tagi.

Hver skyldi vera fjöldi þess fólks sem málið varðar? Það vitum við ekki. Hagstofan vinnur upp ákveðnar upplýsingar á listum. Hún ákveður sjálf hvaða upplýsingar hún vinnur á þessum listum og hefur tekið þá afstöðu að vinna ekki mjög nákvæmar upplýsingar um útlendinga á Íslandi. Ég held að það sé í raun gott þó menn þurfi kannski stundum á því að halda. En í lok ársins 1999 voru erlendir ríkisborgarar á landinu tæplega 15 þúsund, 14.927. Þar af voru 9.642 erlendir menn ekki norrænir, sem eru 3,5% af heildarmannfjölda á Íslandi í árslok 1999. Af þessum 9.600 rúmum eru 2.668 aðrir EES-borgarar en 6.974 sem koma frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Um þetta fólk vitum við ekki miklu meira. Ef því yrði skipt eftir kosningaaldri, undir og yfir 18 ára, eins og við gerum við íslenska ríkisborgara, þá geta það hugsanlega verið 7 þúsund manns en þar af yrðum við að draga frá þá sem hafa búið hér skemur en þrjú ár. Ég hygg að þetta sé a.m.k. þetta ekki slíkur fjöldi að hann ráði úrslitum um íslensk stjórnmál í sveitarstjórnarkosningum.

Við erum ekki alveg óvön reyndar í Íslandssögunni að erlendir menn kjósi hér í kosningum. Þó að það sé auðvitað neðanmálsgrein í þessu máli, þá hafa svokallaðir jafnréttis-Danir notið þeirra réttinda allt frá 1918 en það er ekki fyrr en 1982 að við tökum það upp að erlendir borgarar norrænir geti kosið í sveitarstjórnarkosningum. Það er athyglisvert að þegar Svavar Gestsson, þáv. félmrh., flytur stjfrv. um breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna 1982, þá mælir hann m.a. fram þau rök að það mæli með kosningarrétti og kjörgengi norrænna manna um öll Norðurlönd, eða rökin eru þessi, með leyfi forseta:

,,... norrænn vinnumarkaður, hópar norrænna innflytjenda í löndunum, víðtækt norrænt samstarf og aukið jafnrétti norrænna innflytjenda á við borgara dvalarlandsins.``

[17:00]

Þá var bent á hjá félmrh. að þessir menn greiddu skatta og skyldur til jafns við ríkisborgara landsins og talið að kosningarréttur til sveitarstjórna snerti ekki, með leyfi forseta, ,,fullveldis- eða þjóðernissjónarmið á sama hátt og ef um þingkosningar væri að ræða``.

Það er athyglisvert að þessi rök eiga við í mjög auknum mæli um alla útlendinga, þau sem talin voru þá fram norrænum mönnum til styrktar, auðvitað einkum þá sem koma frá Evrópska efnahagssvæðinu sem nú gilda um sömu lögmál á vinnumarkaði og Norðurlandamenn eina þá, en í raun og veru um alla erlenda menn þegar vítt er litið.

Það er líka athyglisvert að þessi breyting á réttarstöðu útlendinga á Íslandi kom ekki að innan heldur að utan eins og mörg önnur upphefð okkar í mannréttindamálum. Þetta var ákveðið í samstarfi hinna norrænu ríkja í Norðurlandaráði og sett inn í löggjöf annarra þjóða fyrr en okkar, 1976 í Finnlandi og Svíþjóð, 1978 í Danmörku, 1979 í Noregi.

Það er líka athyglisvert að nú eru hin norrænu ríkin á Norðurlöndum öll fjögur búin að breyta þessum ákvæðum þannig að þar gildir það nú í Danmörku og Svíþjóð í héraðskosningum, sveitarstjórnar- og fylkis- og amtskosningum, að allir norrænir menn og borgarar ESB-landanna sem þessi ríki heyra til hafa kosningarrétt og kjörgengi sem miðast við sömu búsetuskilyrði og á við um innlenda kjósendur. Aðrir erlendir ríkisborgarar utan Norðurlanda, utan ESB, verða hins vegar að hafa dvalist í landinu í þrjú ár þannig að þar gilda sömu reglur um aðra ríkisborgara og hér gilda um norræna menn. Finnar hafa sömu skipan en setja aðeins tveggja ára búsetuskilyrði.

Í Noregi sem hefur sömu stöðu og við gagnvart Evrópusambandinu er sú skipan að norrænir menn hafa sama rétt og Norðmenn í héraðskosningum en réttur allra annarra ESB-manna og þeirra sem utan þess bandalags eru fæddir er bundinn þriggja ára búsetuskilyrði, því sama þriggja ára búsetuskilyrði og við látum hér eiga við norræna menn.

Ég tek fram að ég og við flm. gerum í frv. engar tillögur um breytingar á þessu búsetuskilyrði þó að það kunni að þykja einkennilegt í þessu norræna ljósi. Aðalatriðið í frv. er það að víkka þennan rétt út til allra erlendra ríkisborgara. Það verður síðan að vera mat annarra hvort norrænir menn t.d. eða EES-borgarar eigi að hafa rýmri rétt en aðrir útlendingar. Mitt álit er að hér sé svo komið að eðlilegt sé að þeir hafi allir sama rétt.

Árið 1982 þegar þessi breyting er loks lögtekin hér á landi þá er reyndar strax minnst á það að erlendir menn aðrir en norrænir eigi að hafa þennan rétt, það sé eðlilegt. Tveir þingmenn tóku til máls í umræðunum um frv. þá, frv. Svavars Gestssonar félmrh. Guðmundur Vésteinsson af Skaga segir í efri deild þetta, með leyfi forseta:

,,Við þekkjum áreiðanlega flest dæmi þess að fólk af erlendu bergi brotið hafi verið búsett hér á landi árum og áratugum saman án þess að það leitaði eftir íslenskum ríkisborgararétti. Margt af þessu fólki er orðið rótgrónir borgarar í sínum sveitarfélögum, reiðir af hendi gjöld og skyldur skilvíslega og tekur fullan þátt í félags- og menningarlífi sem aðrir þegnar sveitarfélagsins.``

Og hann bætir við:

,,Spyrja má hvort ekki væri ástæða til að ganga lengra í þessum efnum og veita öllum erlendum ríkisborgurum, sem hér hafa dvalið, þennan rétt. E.t.v. verður það einhvern tíma gert. En þetta er þó alla vega spor í rétta átt.``

Í neðri deild tók Magnús H. Magnússon undir með Guðmundi og lagði fram brtt. nákvæmlega samhljóða því frv. sem hér er flutt. Segir hann m.a. að hann leggi til að allir erlendir ríkisborgarar fái þennan rétt, með leyfi forseta:

,,... miðað við að þeir hafi búið hér í þrjú ár, eins og stendur að öðru leyti í þessu frv. Þeir hafa borgað sína skatta og skyldur í þrjú ár. Þá sé ég ekki að það standi nein efni til þess að þeir fái ekki kosningarrétt til sveitarstjórna.``

Hér hafa því tveir víðsýnir menn strax árið 1982 þegar þetta var lögfest bent á að þetta ætti að eiga við alla útlendinga og þróunin síðan hefur heldur styrkt þeirra rök.

Það er líka rétt að nefna það að þegar lögin um kosningar til sveitarstjórna komust í núverandi búning árið 1998 var minnst á þetta mál. Það gerði Kristín Ástgeirsdóttir sem þá var formaður félmn. Hún nefndi það meðal ýmissa álitamála hvort ekki ætti að taka upp þennan sið og nefndi þar sérstaklega íbúa frá Evrópska efnahagssvæðinu, en sagði þá að þetta atriði væri í raun algerlega órætt hér á landi og yrði því að bíða betri tíma. Það er auðvitað spurning hvenær mál eru orðin það rædd að þau geti verið lögtekin. Ég hygg að ákvæðið sjálft um hina norrænu borgara hafi í raun aldrei farið í mjög almenna umræðu en Íslendingar hafi hins vegar kynnst því í sex ár í ýmsum löndum hvernig því var háttað því að samgöngur eru þannig að menn þekkja lög næstu landa í þessum efnum þegar það snertir þá.

Það kann að vera, virðulegi forseti, að menn sætti sig ekki við það þótt í hinum norræna rétti sé ekki til þess horft að ekki ríki gagnkvæmni milli íslenskra ríkisborgara og erlendra, að erlendir ríkisborgarar fái að kjósa hér en íslenskir ríkisborgarar e.t.v. ekki þar, í sveitarfélögum sem þeir eru niður komnir utan lands. Þetta vefst sem sé ekki fyrir norrænum frændum okkar. Þeir hafa í raun tekið upp með þessu ákveðinn stíl í umgengni við erlenda menn í samfélaginu, ákveðið sér tiltekið viðmót sem lög geta skapað og getur á sinn hátt verið mikilvægara í samfélagi okkar við hina erlendu menn, mikilvægara en öll lög.

Auðvitað skiptir það líka máli að framboð og flokkar munu leggja sig fram til að ná þeim atkvæðum sem hér er um að ræða en þó er hitt mikilvægara að með þessari samþykkt væru erlendir menn viðurkenndir jafnréttháir félagar í því samfélagsformi sem er elst hér á Íslandi, þ.e. sveitinni. Almennar ákvarðanir ná til þeirra og þeir ættu með þessari breytingu hlut að þeim ákvörðunum.

Ég ætla ekki að fljúga hátt yfir vegna þessarar tiltölulega smávægilegu lagabreytingar sem kynni þó að varða þann hóp sem um ræðir nokkru. En auðvitað er þetta í grunni sínum mannréttindamál og nær eins og flest mannréttindamál aftur til upphafs nútímans í lok 18. aldar, þó kannski ekki til hinna fögru vígorða frönsku stjórnarbyltingarinnar heldur á við um þetta mál frekar hið praktíska viðhorf amerísku byltingarinnar sem hófst á því að frjálsir bændur í hinni ensku Ameríku vildu enga skattheimtu án ákvörðunarréttar og orðuðu það á sína tungu: ,,No taxation without representation.`` Undir því merki var byltingin gerð í Ameríku. Þetta er í raun og veru umorðun á fornri og sígildri kennisetningu jafnaðarmanna og lýðræðissinna um að skyldum eigi að fylgja réttindi og ábyrgð réttindunum.

Að lokum legg ég til að málið gangi að lokinni þessari umræðu til 2. umr. og hv. félmn.