Þjóðhagsstofnun

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:11:23 (6617)

2001-04-23 15:11:23# 126. lþ. 109.1 fundur 466#B Þjóðhagsstofnun# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið rætt áður í þingsalnum fyrir skömmu, reyndar undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins, ef ég man rétt. Þetta mál er í vinnslu, eins og sagt hefur verið frá, undir forustu Ólafs Davíðssonar ráðuneytisstjóra, sem reyndar var forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar í tvö ár. Hann þekkir vel til þessarar starfsemi.

Þetta mál hefur verið nefnt efnislega í tvígang í ríkisstjórninni, annars vegar í tengslum við seðlabankafund fyrir rúmu ári og aftur í marsmánuði. Að öðru leyti hefur málið ekki verið rætt í ríkisstjórninni. Það er hægt að gera breytingar á starfsemi stofnunarinnar í samræmi við núgildandi lög. Í lögunum segir að gæta verði þess að ekki sé um tvíverknað að ræða vegna starfsemi Þjóðhagsstofnunar. Það er augljóst að nú er um tvíverknað að ræða á ýmsum sviðum í starfsemi stofnunarinnar. Hins vegar tel ég að áður en endanlega verði ráðið um niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar, ef sú verður niðurstaðan, þurfi að ræða málið með formlegum hætti, bæði í ríkisstjórn og í þinginu.