Verð á grænmeti

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:13:44 (6620)

2001-04-23 15:13:44# 126. lþ. 109.1 fundur 467#B verð á grænmeti# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:13]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Í dag verða breytingar á tollum á grænmeti sem kaupmenn segja í fjölmiðlum að muni nær óhjákvæmilega leiða til hækkana á grænmetisverði til neytenda. Meðal annars hækka magntollar á papriku um næstum 200 kr. á kg og í næstu viku munu þessir magntollar hækka enn frekar, upp í 300 kr. á kg. Þessar hækkanir verða á sama tíma og neytendur væntu þess að grænmeti mundi frekar lækka en hitt. Ástæðan fyrir því var augljós. Stjórnvöld og Alþingi hafa lýst eindregnum vilja til að lækka innflutningstolla á grænmeti.

Fyrir skemmstu kom fram á Alþingi nær eindregin samstaða allra sem tóku til máls um þetta mál, um að það ætti að lækka grænmetisverð með því að lækka innflutningstolla. Samt sjáum við að tollarnir halda áfram að hækka. Grænmetisverð er áfram hátt þrátt fyrir að hæstv. landbrh. hafi lýst því yfir að hann mundi af snarræði, eins og hann sagði, beita sér fyrir því að lækka tollana. Það hefur ekki gerst.

Herra forseti. Ég hef fyrir hönd Samfylkingarinnar falið Þjóðhagsstofnun að gera útreikninga á breytingum á matvæla- og grænmetisverði frá því að GATT-samningurinn var stðafestur. GATT-samningurinn var staðfestur 1995. Þá gerðu menn ráð fyrir því að grænmetisverð mundi lækka í kjölfarið. Niðurstaða Þjóðhagsstofnunar er sú að á meðan matvæli hækkuðu frá 1995--2000 um 17,5% þá hækkaði grænmeti um tvöfalt meira eða tæp 35%. Munurinn er geysilegur í krónum talið. Samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar hefðu neytendur greitt 2 milljörðum minna fyrir grænmeti frá 1995--2000 ef verð á því hefði breyst eins og verðlag á öðrum matvælum. Þess vegna spyr ég hæstv. landbrh.: Hvenær ætlar hann að standa við stóru orðin og hvenær mega neytendur búast við að verð á grænmeti lækki eða er hæstv. ráðherra kannski hættur við að lækka tollana?