Verð á grænmeti

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:20:41 (6624)

2001-04-23 15:20:41# 126. lþ. 109.1 fundur 467#B verð á grænmeti# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. landbrh. að ýmsar flóknar ástæður liggja að baki þessari þróun á grænmetismarkaði en þær eru aðallega þrjár. Í fyrsta lagi er það vegna þess að landbrn. hefur um árabil haldið uppi með handafli því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kallaði okurtolla á grænmeti. Í öðru lagi vegna þess að í skjóli þeirrar tollverndar gátu heildsalar gert með sér það sem samkeppnisráð kallaði samsæri gegn hagsmunum neytenda. Í þriðja lagi er það síðan sú staða sem komin er upp á smásölumarkaðnum.

Hæstv. ráðherra getur fyrir sitt leyti unnið hagsmunum neytenda gagn með því að lækka eða fella niður þessa tolla. Eina snarræðið sem hann hefur sýnt hingað til, herra forseti, er ákaflega dapurlegt. Hann sló af nefnd, samráðsnefnd forsrn. og landbrn., um verðlagningu á grænmeti sem hafði komist að samkomulagi um það að lækka þessa tolla. Það er það eina sem hæstv. landbrh. hefur gert til þessa í deilunni og það hefur leitt til þess að niðurfellingu eða lækkun tollanna seinkar fyrir vikið.