Staða starfsnáms

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:25:23 (6627)

2001-04-23 15:25:23# 126. lþ. 109.1 fundur 468#B staða starfsnáms# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi síðari fyrirspurnina er því til að svara að þetta viðbótarnám hefur verið skilgreint. Það hefur verið kynnt af menntmrn. og liggur núna fyrir m.a. í bæklingi sem heitir Nám að loknum grunnskóla sem verið er að dreifa til allra grunnskólanemenda í 9. og 10. bekk grunnskólans þannig að ráðuneytið hefur vissulega framfylgt þeirri lagabreytingu sem samþykkt var á Alþingi og þessar einingar liggja fyrir með almennum hætti af hálfu ráðuneytisins.

Varðandi fyrri fyrirspurnina þá er það rétt að hér á landi hefur verið erfitt að fá nemendur til þess að innrita sig í starfsnám og verknám, og það sem kom fram í fréttum í gær er í sjálfu sér ekkert nýtt. Framhaldsskólalögunum var ætlað að auka áhersluna á verknámið og starfsnámið og gerðar hafa verið margvíslegar ráðstafanir til þess að endurskipuleggja það nám. En það dugar ekki til ef nemendur vilja ekki innrita sig í slíkt nám og þá hafa stjórnvöld lítið um það að segja í sjálfu sér. Enginn hefur bent betur á það en einmitt prófessorinn Jón Torfi Jónasson að það virðist vera sama hvaða ráðstafanir séu gerðar af alþingismönnum eða stjórnvöldum almennt í þessu tilliti, það er vilji nemendanna sem ræður og það er svo að nemendur vilja hér í ríkari mæli en annars staðar innrita sig í bóknám og taka stúdentspróf og hafa það sem grundvöll þegar þeir útskrifast úr framhaldsskóla frekar en verknám.