Staða starfsnáms

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:30:16 (6631)

2001-04-23 15:30:16# 126. lþ. 109.1 fundur 468#B staða starfsnáms# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt að huga þarf að því hvernig best er staðið að því að veita fjárstuðning við verknámið. Það virðist samt ekki ráða úrslitum um það hvort nemendur velja slíkar námsbrautir eða ekki hve miklu fé er varið til þess. Aðrir straumar í þjóðfélaginu virðast ráða því frekar en fjárveitingar til menntamála. En að sjálfsögðu þarf að huga að þessum þætti.

Varðandi námskrár fyrir starfsnámið, þá var það aldrei og hefur aldrei verið sett sem markmið að ljúka gerð þeirra fyrir einhvern ákveðinn tíma heldur hljóta þær að vera í sífelldri endurskoðun og til þess eru starfsgreinaráðin að gera tillögur þannig að námið sé alltaf í sem nánustum tengslum við atvinnulífið sjálft.