Umferðaröryggisáætlun 2001--2012

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:35:21 (6634)

2001-04-23 15:35:21# 126. lþ. 109.1 fundur 469#B umferðaröryggisáætlun 2001--2012# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svarið. En ég fékk ekki svar við því sem ég spurði um. Hvers vegna hefur þeim drögum að umferðaröryggisáætlun sem dreift var á umferðarþingi ekki verið fylgt eftir á Alþingi? Það var spurningin.

Jafnframt vil ég spyrja vegna þess að starfandi hefur verið svokölluð umferðaröryggisnefnd sem vann þessi drög sem sett hafa verið fram, en skipunartíma þeirrar nefndar lauk um síðustu áramót og mér vitanlega hefur ekki verið skipuð önnur nefnd til að halda áfram þeirri vinnu sem þar var verið að vinna og fylgja henni eftir. En í þeirri nefnd voru Þórhallur Ólafsson, formaður Umferðarráðs, Rögnvaldur Jónsson frá Vegagerðinni og Georg Lárusson. Skipunartími nefndarinnar rann út um síðustu áramót og ný nefnd hefur ekki verið skipuð og því vil ég bæta við spurningu og spyrja hæstv. dómsmrh.: Hvers vegna hefur ný umferðaröryggisnefnd ekki verið skipuð? Og ég ítreka fyrri spurningu mína: Hvers vegna hefur umferðaröryggisáætlunin ekki verið lögð fram á hinu háa Alþingi?