Umferðaröryggisáætlun 2001--2012

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:37:41 (6636)

2001-04-23 15:37:41# 126. lþ. 109.1 fundur 469#B umferðaröryggisáætlun 2001--2012# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Mér finnst miðað við þau svör sem hér hafa komið fram og miðað við það að umferðaröryggisáætlun hefur ekki verið lögð fram og að umferðaröryggisnefnd hefur ekki verið skipuð, þá hef ég einhvern veginn á tilfinningunni að þessi málaflokkur sé dálítið hornreka eða sé hálfgert olnbogabarn í dómsmrn. og ekki sé verið að vinna af miklum krafti að þessum málum núna.

Ég minni á að þegar umferðaröryggisáætlun kemur fram, væntanlega um leið og þing kemur saman í haust, þá verður fyrsta ár áætlunarinnar liðið. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ganga of hægt í þessu og það er spurning hvort í dómsmrn. sé ekki mannskapur til að vinna þetta verk eða hvort í þjóðfélaginu sé ekki til fólk til að taka að sér störf í þeim nefndum sem þetta þurfa að vinna.

Jafnframt vil ég, herra forseti, spyrja hæstv. dómsmrh. Í gildandi þingsályktun um umferðaröryggismál segir:

,,Dómsmálaráðherra kynni Alþingi í byrjun hvers árs stöðu umferðaröryggismála og hvernig áætluninni miðar í átt að settu marki. Starfs- og framkvæmdaáætlun verði endurskoðuð árlega.``

Herra forseti. Mig langar í lokin að spyrja hæstv. dómsmrh. út í það hvenær megi vænta þessarar skýrslu.