Umferðaröryggisáætlun 2001--2012

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:39:10 (6637)

2001-04-23 15:39:10# 126. lþ. 109.1 fundur 469#B umferðaröryggisáætlun 2001--2012# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:39]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa yfir undrun minni á því ef hv. þm. hefur ekki tekið eftir því hvaða áhersla hefur verið lögð á umferðaröryggismál í dómsmrn. núna á síðasta ári og á síðustu tveimur árum raunar. Það kemur mér afskaplega mikið á óvart. Ég nefndi nokkur atriði í fyrstu ræðu minni þannig að ég vísa einhverjum slíkum ásökunum alfarið á bug. Þær eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.

Sem betur fer eru flestir hv. þm. sammála því að þetta séu þverpólitísk mál sem nauðsynlegt sé að taka á sameiginlega og snúa þeirri óheillaþróun við sem þegar á sér stað í þessum málum. Og það er alveg óþarfi, hv. þm., að vera að tortryggja störf manna í því sambandi.

Ég vek athygli á því að sú áætlun sem þingmaðurinn er ávallt að spyrja um er til næstu 12 ára og því nægur tími til stefnu. Það er hins vegar full ástæða til að fara mjög rækilega ofan í þessi mál og ég fullvissa hv. þm. um að verið er að gera það.