Árósasamningur um aðgang að upplýsingum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 16:18:54 (6646)

2001-04-23 16:18:54# 126. lþ. 109.19 fundur 654. mál: #A Árósasamningur um aðgang að upplýsingum# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[16:18]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er hlutverk mitt að taka undir það sem hér hefur verið sagt á undan. Mér finnst að í raun og veru sé verið að flytja inn nýja hugsun í þau mál sem við höfum kynnt á undanförnum árum. Stjórnvöld eru að leggja til að samþykkt verði að standa öðruvísi að málum en gert hefur verið og réttur félagasamtaka til að hafa áhrif á þær gerðir sem fyrirhugaðar eru í framtíðinni verði virtur.

Þetta er yfirlýsing um að svona starf, þ.e. ákvarðanir um hvernig við nýtum náttúruna, fari fram fyrir opnum tjöldum. Það er kannski það almikilvægasta í lýðræðisþjóðfélagi að allar ákvarðanir um hvernig nýting náttúrunnar skuli vera fyrir opnum tjöldum.

Mér finnst þessi samningur að því leyti sem ég hef haft tækifæri til að kynna mér hann vera afskaplega vel hugsaður að þessu leyti öllu og í honum felast afar miklar yfirlýsingar frá hendi stjórnvalda um breytta afstöðu til þess ferlis sem þessi mál hafa verið í fram að þessu og ber að fagna því alveg sérstaklega. Ég hef enga ástæðu til að efast um að það séu full heilindi á bak við að menn skuli leggja þennan samning fram. Ég tel þess vegna ástæðu til að vona að ákveðinn stirðleiki og óeðlileg samskipti sem ég vil kalla á undanförnum árum vegna fyrirhugaðra framkvæmda eða verkefna sem hafa áhrif á íslenska náttúru, að framkvæmd slíkra hluta verði með allt öðrum hætti í framtíðinni en verið hefur fram að þessu. Ég tel reyndar að með lögunum sem eru orðin til, þó að þurfi að betrumbæta þau, um mat á umhverfisáhrifum og annað slíkt sem við höfum, og með þeim samningi sem hér liggur fyrir ásamt því ferli sem þessi mál hafa haft á undanförnum árum, sé það okkur trygging fyrir því að við séum að sigla inn í breytta tíma hvað þetta varðar. Það hefur tekist faglega. Það hefur tekist með hugsuninni um að varðveita náttúruna og nýta hana varlega í öllum málum. Auðvitað munum við ekki sigla fram hjá því að þurfa að takast á um einstök mál. En að það verði gert opið fyrir opnum tjöldum og með það í huga að í framtíðinni séum við ekki að búa til vandamál með gerðum okkar og við getum varið þau fyrir barnabörnunum okkar þegar við erum komin á efri ár.