Menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 16:36:30 (6651)

2001-04-23 16:36:30# 126. lþ. 109.22 fundur 659. mál: #A menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[16:36]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. utanrrh. byggir frv. sem liggur fyrir þinginu og er flutt af hæstv. samgrh., þ.e. frv. til laga um áhafnir íslenskra skipa, á því að Ísland gerist aðili að þeirri samþykkt sem þessi till. til þál. mælir fyrir um.

Herra forseti. Þess er beðið að hæstv. samgrh. mæli fyrir því frv. Það er búið að liggja býsna lengi fyrir. Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. hvort það sé mat þeirra að þetta verði að koma í þeirri röð að fyrst sé mælt fyrir þáltill. og svo komi samgrh. og mæli fyrir frv. til laga. Megum við vænta þess að það gerist fljótlega? Er hæstv. utanrrh. kunnugt um hvort hæstv. samgrh. hefur gert það upp við sig og þá jafnframt hvort ríkisstjórnin ætlar á einhvern hátt að koma til móts við þær óskir sem liggja fyrir frá stéttarfélögum, sem nú eiga í harðvítugri vinnudeilu, um breytingar á því frv.?

Það er alveg ljóst og hefur margítrekað komið fram að a.m.k. Vélstjórafélagið og gott ef ekki Farmanna- og fiskimannasambandið einnig eru með það sem ákveðna forsendu þess að samningar geti tekist að upplýst verði hvort og þá hvað hæstv. samgrh. er tilbúinn til að gera til breytinga á því frv. Því þar eru inni ákvæði sem eru eins og fleinn í holdi þessara stéttarfélaga.

Ég geri ráð fyrir, herra forseti, að þetta mál hafi verið rætt í ríkisstjórn. Þessi tvö mál fylgjast að og ég vænti þess að hæstv. utanrrh. geti veitt hér nokkur svör.