Menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 16:42:36 (6654)

2001-04-23 16:42:36# 126. lþ. 109.22 fundur 659. mál: #A menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[16:42]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Sú till. til þál. sem hér er fjallað um, um aðild að alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips, er nauðsynlegt plagg inn í þingið vegna þess að frv. sem vikið var að hér áðan í andsvari hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur hefur legið fyrir alveg síðan í haust. Ég benti á það í umræðum í þinginu þegar verið var að ræða mál um sérstakt lagaráð, að það frv. gæti ekki hlotið afgreiðslu vegna þess að það stæðist ekki lagatæknilega, þar sem þessi samningur væri ekki kominn fram og hefði ekki verið staðfestur af íslenskum stjórnvöldum.

Frv. um áhafnir skipa vitnar m.a. til þessa samnings og þess vegna var alveg nauðsynlegt að hér kæmi fram þingsályktunartillaga sem staðfesti þennan samning og málið þannig undirbyggt að það frv. sem tekur til áhafna skipa væri byggt á einhverju sem við hefðum raunverulega staðfest. Þess vegna tel ég að það sé rétt málsmeðferð sem nú er komin fram í þinginu, að taka þennan samning til umfjöllunar og staðfestingar áður en við afgreiðum frv. um áhafnir íslenskra skipa.

Hins vegar er alveg rétt að frv. um áhafnir íslenskra skipa veldur deilum og eykur á deilurnar í kjaradeilu þeirri sem nú á sér stað á fiskiskipum. Það liggur auðvitað í því að í frv. um áhafnir skipa stendur til að fækka vélstjórum og fækka stýrimönnum. Og ríkisstjórnin hlýtur að telja að í því frv. hafi hún einhver rök í því máli að leggja það til.

[16:45]

Ég tel hins vegar að þegar að samþykktum þessum samningi sem við nú ræðum, neyðist menn til þess að breyta frv. vegna þess að í þessum samningi er beinlínis kveðið á um mjög margt sem snýr að réttindum, skyldum, menntun, störfum, þjálfun og vaktstöðu sjómanna á fiskiskipum yfir 24 metrum að lengd. Reyndar er hér kveðið á um að þeir sem öðlast réttindi til að starfa á skipum sem eru 24 metrar að lengd eða stærri megi að hluta til öðlast siglingatíma á skipum sem eru allt niður í 15 metrar að lengd. Í raun tekur því samningurinn til ákvæða um að siglingatími teljist gildur til öflunar réttinda á stærri skip þó að skipstjórnarmenn sem hafa hlotið til þess menntun hafi aflað sér stýrimannstíma á skipum sem eru undir 24 metrum, sem er meginregla í því plaggi sem við erum að fjalla um.

Bara til þess að draga fram í stuttu máli hvað ég á við þegar ég segi að ég telji að frv. um áhafnir íslenskra skipa þurfi endurskoðunar við þegar þessi samningur hefur verið samþykktur hér, sem ég tel sjálfsagt að verði, þá vil ég vísa til viðauka á bls. 11 í skjalinu, I. kafla, almenn ákvæði, reglu 1, skilgreiningar. Þar segir í 5. tölul., en á undan er búið að telja upp skipstjóra og yfirmann, einhvern skipverja, annan en skipstjóra, með leyfi forseta:

,,Yfirmaður siglingavaktar, yfirmaður sem uppfyllir kröfur samkvæmt reglu II/2 eða II/4 í þessari samþykkt.``

Ef menn skoða aðeins hvað þessar reglur segja, þá er best að lesa II. kafla og skoða þar reglur 1 og 2, en þar eru upp talin öll ákvæðin um menntun skipstjórnarmanna. Og þar er ekkert smáræði talið upp. Nánast er talið upp nákvæmlega hvað menn þurfa að læra í öllum atriðum.

Ég tel að þegar við höfum endanlega staðfest þetta verði ekki undan því vikist að breyta frv. um áhafnir íslenskra skipa í samræmi við það að þeir sem eiga að vera yfirmenn á siglingavakt geti ekki verið aðrir en menntaðir stýrimenn. Þar af leiðandi standist ekki það frv. sem hér liggur fyrir og það þurfi endurskoðunar við og á grundvelli þess verði stýrimönnum ekki fækkað eins og lagt er til í því frv.

Ég held að þetta megi bara lesa beint út úr þessu með því að kynna sér vel þennan samning og skoða þær kröfur sem gerðar eru til þeirra sem kallaðir eru yfirmenn á siglingavakt.

Ég tel því og tek undir það sem kom hér fram í andsvari áðan að nauðsynlegt sé að endurskoða frv. um áhafnir íslenskra skipa og breyta þar ákveðnum atriðum sem ég held að yrðu þá í leiðinni til mikilla sátta í þeirri deilu sem fiskimenn eiga nú í.