Menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 16:49:25 (6655)

2001-04-23 16:49:25# 126. lþ. 109.22 fundur 659. mál: #A menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[16:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vona að það sé rétt að menn geti fundið upp á einhverju í þessari erfiðu deilu sem gæti þar orðið til sátta þó að ég sé nokkurn veginn viss um að þetta sé ekki eina málið sem geti leitt það fram. En það er eðlilegt að til þess sé litið í þessu sambandi.

Ég vil aðeins ítreka það sem ég sagði áðan. Það voru 74 ríki sem tóku þátt í þessari ráðstefnu á sínum tíma og stóðu að þessum samningi. Aðeins tvö ríki hafa fullgilt samninginn, þ.e. Danmörk og Rússland. Núna er í gangi sérstakt átak til þess að reyna að koma þessum samningi í gildi. En við getum ekki staðið að honum nema að samþykktum lögum vegna þess að við höfum ekki efnislegar forsendur til þess að standa að honum nema lögin verði afgreidd. Hins vegar var nauðsynlegt að taka þessa þáltill. hér til umfjöllunar samhliða lagafrv. Ég vil aðeins ítreka að það er forsenda þess að við getum gerst aðilar að samningnum, þ.e. fullgilt samninginn. Við undirrituðum hann á sínum tíma með fyrirvara, með þeim fyrirvara að Alþingi Íslendinga samþykkti lagabreytingar sem gerðu okkur kleift að fullgilda hann. En við getum á engan hátt staðið að honum nema lögum sé hér breytt. Þetta vildi ég aðeins ítreka svo hv. þingmönnum sé það ljóst. En ég er ekki að segja með því að afgreiða þurfi lögin nákvæmlega eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég hef ekki þekkingu til þess að fullyrða neitt um það. En það frv. verður a.m.k. að vera í samræmi við þann alþjóðasamning sem við undirrituðum með fyrirvara á sínum tíma. Ef Alþingi kýs að hafna því þá verðum við ekki aðilar að þessum samningi. Það er í sjálfu sér ekkert flóknara en það.