Girðingalög

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 16:53:47 (6657)

2001-04-23 16:53:47# 126. lþ. 109.23 fundur 636. mál: #A girðingalög# (heildarlög) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[16:53]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir frv. til girðingalaga sem er orðið til eftir að yfir því hefur setið ágæt nefnd í landbrn.

Ég hef farið yfir þetta frv. og sýnist að margt sem lagt er til í því sé til bóta. Ég vil t.d. tiltaka að mér finnst sérstaklega merkilegt og mjög til bóta að sett skuli í lög að það eigi að taka upp girðingar þegar hætt er að nota þær svo þær valdi ekki tjóni, en það er náttúrlega mjög til vansa á Íslandi að hér eru alls konar girðingar, gamlar og löngu hættar að gegna sínu hlutverki út um allar þorpagrundir, látnar óáreittar áratugum saman. Svo eru dýr að festast í þeim, auk þess hamla þær frjálsa för fólks um landið. Mér þykir það því mjög til bóta að þetta skuli koma í lög.

Ég verð að segja að það sem lagt er til um að skipting girðingakostnaðar á landamærum sé alltaf til helminga er að sjálfsögðu göfugt markmið. En ég er hrædd um að það verði erfitt í framkvæmd því oft háttar svo til að saman liggja eyðijarðir sem eru í eigu einhverra sem hafa erft þær og svo jarðir sem eru í ábúð. Ef bændur þar vilja girða held ég að erfitt verði að stilla eigendum jarða sem ekki er lengur búið á og engar nytjar eru af upp við vegg með að þurfa að borga helming girðingakostnaðar jafnvel þó að viðkomandi búnaðarsamband sé með oddamann í einhvers konar úrskurðarnefnd. Ég óttast að þetta geti orðið erfitt í framkvæmd. En að öðru leyti eigum við auðvitað eftir að fara yfir frv. í smáatriðum í hv. nefnd þar sem ég á sæti og þar mun ég eiga þess kost að koma fram með mínar athugasemdir.