Landgræðsluáætlun 2002-2013

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 17:24:21 (6662)

2001-04-23 17:24:21# 126. lþ. 109.24 fundur 637. mál: #A landgræðsluáætlun 2002-2013# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[17:24]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. sem hér hafa tjáð sig um þáltill. um landgræðsluáætlun fyrir árin 2002--2013, og fagna því að hún er fram komin. Nokkur bið hefur verið eftir þessari þáltill. og þeim mun meiri ástæða er til að fagna því að hún skuli hafa litið dagsins ljós. Hún getur þá farið í umræðu og umfjöllun til þess að geta síðan eftir ítarlega umfjöllun á vegum þingsins komið til framkvæmda.

Það er ekki minn háttur að vera endilega að finna að við þá sem ekki eru viðstaddir, en ég vil þó vekja athygli forseta á því að þegar jafnmikið stórmál og landgræðsluáætlun er til næstu tíu ára með bindingu á fjármagni upp á allverulega háar upphæðir kemur til umræðu, þá eru nú ekki margir stjórnarliðar að styðja hæstv. ráðherra í að leggja fram þessa ágætu þáltill. eða fylgjast með umræðunni um hana.

Það sem ég vildi vekja athygli á eru þau atriði sem ráðherra kom inn á varðandi verkefni og aðgerðir. Það var alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að grundvöllur fyrir vinnu til næstu ára er aukin þekkingaröflun, rannsóknir og fræðsla og síðan að finna hagkvæmustu leiðir til að vinna verkin, ná árangri.

Í því sambandi vil ég taka undir áherslur sem lagðar eru á að varið verði töluverðu miklu fjármagni til rannsókna og hversu mikilvægt það er í byggðalegu tilliti að ekki aðeins verkefnin, heldur líka rannsóknir og þróunarstörfin verði vistuð og unnin á stofnunum landbúnaðarins víða um land.

Ég vil fagna því sem hér er nefnt að efla starf héraðssetra og koma á fót héraðssetri á Austurlandi. Ég hefði þó viljað sjá kveðið eitthvað nákvæmar, handfastar að orði um hvernig ætti að efla héraðssetrin, hvaða verkefni væru flutt eða falin þeim í þessum þróunar- og landgræðsluátaksverkefnum. Ég segi þetta vegna þess að það er svo mikil tilhneiging til þess að störfin sem þurfa fagþekkingu, sérþekkingu, séu vistuð í Reykjavík, hversu svo sem við samþykkjum lög á Alþingi sem eiga að bera vísbendingu til annars, þá vill það nú verða svo. Ég vil því árétta það við hæstv. ráðherra, sem ég veit að hefur mikinn vilja, a.m.k. hefur hann lýst því hér í þingsölum, til að þessi þróunarverkefni, þetta faglega starf, verði vistað hjá stofnunum landbúnaðarins hvort sem það er hjá Landgræðslunni í Gunnarsholti, Skógræktinni á Egilsstöðum, á Hallormsstað, Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði, Hólaskóla eða Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, þá verði markvisst unnið að því að rannsóknastörf, fagþekking og önnur verkefni á því sviði verði með markvissum hætti færð út til þessara stofnana, en ekki bara lýst yfir góðum vilja.

Ég vil í þessu sambandi, herra forseti, m.a. benda á verkefnið Nytjaland sem tengist þessu með gagnasöfnun, rannsóknum og faglegri forvinnu við þetta. Meginþungi þess verkefnis er vistaður í Reykjavík sem gæti verið hjá stofnunum landbúnaðarins eins og við ræddum hér um fyrr á þinginu í vetur.

Þetta vildi ég láta koma fram. Ég tel og óska eftir því að hv. landbn. taki markvissara á þessum málum, meira í formi verkefna og sýnilegra aðgerða hvernig þessum málum verði fyrir komið og þau vistuð formlega á héraðssetrunum, á höfuðstofnunum, rannsókna- og menntastofnunum landbúnaðarins út um land, þannig að þetta verði þar til almenns styrktar, ekki aðeins Landgræðslunni, í vinnunni úti á akrinum meðal bænda og annarra sem eru að ráðstafa landi, heldur einnig meðal þeirra stofnana landbúnaðarins sem gegna svo veigamiklu hlutverki einmitt í að viðhalda og græða landið, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu út um allt land.

Ég árétta það, herra forseti, að við horfum svo oft á að við gefum góðar yfirlýsingar, góð fyrirheit en upplifum annað. Ég vona að með sameiginlegu átaki ráðherra, ráðuneytis, landbn. og þeirra stofnana sem hér koma að málum verði þetta ekki aðeins í Reykjavík heldur verði þetta til þess að efla slíkar stofnanir úti á landi og úti um hinar dreifðu byggðir. Þar eiga öll þessi verkefni heima.