Landgræðsluáætlun 2002-2013

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 17:38:46 (6664)

2001-04-23 17:38:46# 126. lþ. 109.24 fundur 637. mál: #A landgræðsluáætlun 2002-2013# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[17:38]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er sannarlega ástæða til að taka undir velfarnaðaróskir þeirra þingmanna sem hafa talað í þessari umræðu um landgræðsluáætlun. En ég get ekki annað en lýst yfir furðu minni með ákveðinn þátt í ræðu hæstv. ráðherra hér á undan, þ.e. kaflann um gæfu Framsfl. sem telur sér m.a. til tekna rismikið atvinnulíf á landsbyggðinni. Þess verður að geta, herra forseti, að stóriðjustefna Framsfl. er ekki hluti af rismiklu og fjölbreyttu atvinnulífi á Íslandi. Og það verður að minna hæstv. landrh. á að ef hann ætlar að halda því fram að hægt sé að vega upp á móti losun stóriðju á koltvísýringi og öðrum gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið með því að bæta jarðveg og gróðursetja tré, þá er hann sannarlega á miklum villigötum.

Og það verður að minna hæstv. ráðherra á að umræðunum í Haag, á sjötta aðildarríkjaþingi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmálin í nóvember sl., var siglt í strand vegna þess að Bandaríkjamenn gerðu kröfu um að binding kolefnis í gróðri og landgræðslu yrði talin þeim til tekna hvað varðaði losun á gróðurhúsalofttegundum, en það var nákvæmlega það sem Evrópusambandið gat ekki samþykkt og þess vegna sigldu umræðurnar í strand. Ekki er hægt að ætla sér að nýta þessi rök í umræðunni um landgræðsluáætlun á Íslandi því þau eru fullkomlega ómerk.

Að öðru leyti hirði ég ekki um að ræða frekar gæfu Framsfl. í þessu andsvari mínu við hæstv. ráðherra.